Óslóarbúar lengst í biðröðum

Fáir bílar á ferð að þessu sinni í miðborg Ósló. ...
Fáir bílar á ferð að þessu sinni í miðborg Ósló. Konungshöllin í bakgrunni. mbl.is/Golli

Íbúar Óslóar eru lengur á leiðinni inn í borgina en áður og lengur á leið til vinnu eða vegna erindreksturs en nokkrir aðrir höfuðborgaríbúar á Norðurlöndunum.

Ósló tók við titlinum sem mesta biðraðaborgin 2016 af Stokkhólmi. Svo mjög hafa biðraðir aukist í norska höfuðstaðnum að þegar menn setjast þar um borð í bíl verða þeir að reikna með að ferðin frá A til B taki 30% lengri tíma en við eðlilegan ferðatíma.

Ósló er í 52. sæti yfir mestu biðraðaborgir og -bæi Evrópu og í 113. sæti á heimsvísu. Mest er umferðin þar – og þar með biðraðirnar – á fimmtudögum og föstudögum. Fyrir árið 2016 í heild var umferðin mest 4. maí, á uppstigningardegi, er Óslóarbúar streymdu úr borginni.

Í þriðja sæti er finnska höfuðborgun Helsinki, í því fjórða er Uppsalir í Svíþjóð, Turku í Finnlandi í því fimmta og sjötti mesti biðraðabærinn er Stafangur í Noregi, sem var í fimmta sæti fyrir ári. Þar tekur bílferð nú um 24% lengri tíma en ef engar biðraðir væru.

Af öðrum norskum bæjum má nefna að Þrándheimur er í 10. sæti á norræna listanum en var í 13. sæti fyrir ári. Björgvin sígur hins vegar niður listann og er í 12. sæti, en var í níunda sæti fyrir árið 2015.

Framangreindur listi er byggður á gögnum frá gervihnattaleiðsögufyrirtækinu TomTom sem reiknað hefur út frá notkun GPS-búnaðar hversu lengi íbúarnir eru á ferð í umferðinni og í biðröðum. Talsmaður fyrirtækisins segir að endurskipulegðu einungis 5% íbúanna ferðavenjur sínar myndi ferðatíminn á helstu þjóðvegum og hraðbrautum allra styttast um 30%. agas@mbl.is