Aukið úrval rafknúinna sendibíla

Renault Master sést hér til sýnis sem rafsendibíllinn á bílasýningunni …
Renault Master sést hér til sýnis sem rafsendibíllinn á bílasýningunni í Brussel. Hann er væntanlegur á götuna síðar í ár.

Renault Group hefur keypt franska fyrirtækið PVI sem hefur langa reynslu af nýhönnun og breytingum á sendibílum þannig að þeir geti gengið á rafmagni eða jarðgasi í stað bensíns eða dísilolíu eingöngu.

Markmið Renault er að flýta þróun og innleiðingu nýrra orkugjafa í þeirri deild fyrirtækisins sem annast framleiðslu og markaðssetningu atvinnubíla, sérstaklega minni sendibíla á borð við Kangoo, Trafic og Master.

Fyrir Renault felast helstu verðmæti PVI í mikilli sérþekkingu starfsmanna fyrirtækisins á því hvernig hagkvæmast sé að breyta atvinnubílum í ofangreindu skyni á meðan PVI öðlast greiðari aðgang að fjármagni og þróuðum innviðum Renault til innkaupa á margvíslegum íhlutum vegna samsetningar á rafknúnum atvinnubílum. Renault er nú þegar helsti framleiðandi rafknúinna léttra sendibíla í Evrópu og hyggst fyrirtækið þróa stefnu sína í þeim málaflokki áfram með PVI og auka úrval slíkra atvinnubíla.

Rafknúinn Master

Sérfræðingar Renault og PVI þróuðu saman nýjustu kynslóð stóra sendibílsins Renault Master sem frumsýndur var á atvinnubílasýningunni í Brussel þann 13. janúar síðastliðinn. Í honum hafði dísilvélinni verið skipt út fyrir öflugan rafmótor. Bíllinn kemur á markað í Evrópu í árslok. Renault býður nú þegar fjórar gerðir rafknúinna atvinnubíla, þar á meðal Kangoo sem allnokkur reynsla er komin á hér á landi. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: