Öflugir AMG-bílar á sýningu Öskju

Mercedes-AMG GT verður sýndur hjá Öskju um helgina.
Mercedes-AMG GT verður sýndur hjá Öskju um helgina.

Bílaumboðið Askja blæs til stórsýningar á Mercedes-Benz bílum um næstu helgi 25.–26. mars kl. 12-16 í Skútuvogi 2.

„Þetta er ein veglegasta bílasýning sem haldin hefur verið hér á landi en þar verða sýndir margir glæsilegir Mercedes-Benz bílar í AMG og Plug-In Hybrid útfærslum. AMG deild Mercedes-Benz hefur það hutverk að smíða ofurútgáfur af Mercedes-Benz bílum með bestu aksturseiginleika og mesta afl sem fyrirfinnst í bílum þýska lúxusbílaframleiðandans. Hafa aldrei fleiri slíkir bílar verið sýndir undir einu þaki hér á landi en heildarhestöfl sýningarinnar eru tæp fimm þúsund. Sex tengiltvinnbílar sem knúnir eru rafmagni og bensíni verða jafnframt á sýningunni ásamt B-Class rafmagnsbílnum,“ segir í tilkynningu um sýninguna.

Stjarna sýningarinnar verður væntanlega Mercedes-AMG GT sportbíll. Hann er með fjögurra lítra 476 hesta V8-vél. Til að komast úr kyrrstöðu í hundraðið þarf hann aðeins 4 sekúndur.

Meðal annarra bíla á sýningunni má nefna 4x42 G-Class jeppann sem framleiddur er í takmörkuðu upplagi. Þá verða sportjepparnir stóru GLS 63 AMG og GLE 43 AMG einnig sýndir sem og sportbílarnir C 63 AMG Coupé og C-Class Cabriolet. Þá verða einnig á staðnum S-Class AMG, V-Class AMG, CLA 250 Sport með AMG pakka ásamt B-Class 250e rafbílnum sem er fyrsti hreini rafbíllinn frá þýska lúxusbílaframeliðandum sem kemur hingað til lands.

mbl.is