Citroën með þróunarjeppa í Genf

Citroën mætir til leiks á bílasýningunni í Genf 7. til 19. mars með þróunarjeppann C-Aircross. Honum er meðal annars stefnt gegn Nissan Juke og einnig verður Crossland X-smájeppinn frá Opel keppinautur.

Þegar Opel ákvað að hætta smíði litla fjölnotabílinn Meriva og bjóða upp á Crossland X-jepplinginn í staðinn ákvað Citroën að fara þá leið líka. Mun C-Aircross þannig leysa C3 Picasso af hólmi.

Crossland X og C-Aircross deila undirvagni með samstarfi General Motors (GM) og PSA Peugeot Citroën, en viðræður standa nú yfir um kaup PSA á Opel og Vauxhall frá GM.

C-Aircross er önnur tilraun Citroën til að láta til sín taka í jeppasmíði en sá fyrsti í langri sögu fyrirtækisins er C4 Cactus. Viðtökur hans á markaði hafa sannfært forsvarsmenn franska bílsmiðsins að leita frekar fyrir sér í jeppaframleiðslu. Í kjölfar C-Aircross er svo von á jeppa á stærð við Qashqai svo og sjö sæta jeppa frá Citroën en þeir munu báðir deila undirvagni með Peugeot 3008 og 5008.

Útlitslega deilir C-Aircross mörgu með nýja C3 hlaðbaknum og verulega miklu af vélrænum þáttum bílanna. Sömuleiðis eru áhrif frá C4 Cactus augljós, ekki síst loftpúðarnir á hurðunum. Þær eru þó enn neðar á C-Aircross, rétt fyrir ofan sílsana.

Þar sem hann er aðeins 4,1 metra langur telst C-Aircross smájeppi. Er hann svo gott sem sömu stærðar og C3 og Juke. Þrátt fyrir jeppalegt útlit verður hann ekki með drif á öllum fjórum hjólum. Hins vegar verður rafræn gripstýring sem ökumaður getur gripið til og auðveldar akstur í erfiðum aðstæðum og torleiðum, svo sem í snjó, sandi eða utanvegar.

Talið er að samskonar aflrás verði í C-Aircross og í C3 og C4 Cactus, þ.e.a.s. 1,2 lítra Puretech bensínvél eða 1,5 lítra dísilvél.

Afturhurð bílsins er ekki áföst burðarbita fyrir miðju bílsins heldur opnast hún út og aftur með bílnum. Þetta fyrirkomulag bætir aðgengi að honum stórlega. Þá verður hann á 18 tommu felgum. Í stjórnklefa og farþegarými verður fjöldi nýjunga en þar sem C-Aircross flokkast enn á hugmyndastigi er ólíklegt að þær verði allar í endanlegum framleiðslubíl. Hið sama gildir um hliðarspeglana sem víkja fyrir myndavélum. óvíst er hvort sú hugmynd lifir af.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: