Að vera skotinn í Svía

Það er ekki annað hægt en að brosa allan hringinn …
Það er ekki annað hægt en að brosa allan hringinn þegar boðið er upp á annan eins dótadag í vinnunni.

Er ekki skemmtilegt hvernig spegla má heilu þjóðirnar í bílunum sem þær framleiða?

Að eiga ítalskan bíl er eins og að eiga ítalskan elskhuga: hann skortir ekki glæsileikann, tælir og daðrar, finnst gaman að láta á sér bera og er skemmtilegur ferðafélagi, en maður veit ekki alveg hvort má stóla á hann alla leið á áfangastað.

Bandarísku bílarnir minna á karlmannlegan og kraftalegan kúreka; kúrekinn lætur mikið fyrir sér fara, kallar ekki allt ömmu sína, er sjaldan smáfríður en þeim mun stæltari.

Þýsku bílarnir eru alvörugefnir, rétt eins og verkfræðingarnir sem hanna þá. Áreiðanlegir, fyrirsjáanlegir, og nokkuð snotrir. En þegar maður liggur uppi í sófa og horfir á Netflix með Benz eða Audi í fanginu stendur maður sig stundum að því að sakna dyntótta ítalska skaphundsins með lélegu tímareimina.

Sænski sjarminn

En hvernig eru þá sænskir bílar?

Svíar eru mjög sérstakur þjóðflokkur. Drottningin þeirra er sannfærð um að vinalegir litlir draugar búi í konungshöllinni. Þeir hafa fært okkur Wasa-hrökkbrauð, IKEA-kjötbollur, Abba og Astrid Lindgren. Gott ef Svíarnir eru ekki upp til hópa svolítið skrítnir við fyrstu sýn. En þegar maður kynnist þeim betur reynast þeir einkar viðkunnanlegir og sænska sérviskan verður þá bara þeim mun meira sjarmerandi.

Þegar mér var boðið á stefnumót við nýja V90 Cross Country var ég hæfilega spenntur. Hversu mikið fútt gæti jú verið í sænskum hlaðbak? En eftir að hafa skautað með Svíanum mínum á ísi lögðu vatni skammt frá Östersund var ég orðinn bálskotinn. Ekki nóg með það heldur var ég lentur í miðjum ástarþríhyrningi, því Volvo hafði ákveðið að hleypa bílablaðamannahópnum líka í XC90T8.

Leikið í snjónum

Ferðinni var sumsé heitið til Svíþjóðar í lok janúar. Þangað hafði Volvo boðað blaðamenn frá öllum heimshornum til að kynnast V90 Cross Country, síðustu viðbótinni við 90-línuna frá Volvo. Það var við hæfi að smala blaðamönnunum saman á fallegu skíðahóteli og leyfa þeim að leika sér í snjónum, því með nýja bílnum vill Volvo reyna að höfða til ævintýragjarns útivistarfólks. Skottið rúmar hnakkinn, hundinn og skíðin, og bíllinn ræður léttilega við verstu sveitavegi. Innan um snjóinn og trén er Volvo 90 CC í sínu náttúrulega umhverfi.

En tíminn var af skornum skammti og ekki hægt að prófa bílinn nógu ítarlega til að geta skrifað um hann ekta reynsluakstursgrein.

Akstur á ísilögðu vatni er ekki endilega besta leiðin til að dæma um gæði bíls, en hin besta skemmtun sem allir ættu að prófa a.m.k. einu sinni á lífsleiðinni.

Eins og á góðu fyrsta stefnumóti var leiknum hætt þá hæst hann stóð, og ég fullur tilhlökkunar eftir því að leiðir okkar Svíans liggi saman á ný. Eftir situr minning um fumlausa akstursupplifun, þægindi, lúxus og fallega hönnun bæði að innan sem utan.

Það verður ekki af Svíunum tekið að þeir kunna að koma manni á óvart, og kitla mann óvænt á stöðum sem maður hafði löngu gleymt. ai@mbl.is

Skipst var á að aka. Slóvaski blaðamaðurinn Pétur í farþegasætinu.
Skipst var á að aka. Slóvaski blaðamaðurinn Pétur í farþegasætinu.
Ísinn ýkti muninn á akstursstillingum bílsins. Volvóinn V90 CC stóð …
Ísinn ýkti muninn á akstursstillingum bílsins. Volvóinn V90 CC stóð sig furðuvel í sannkallaðri flughálku.
Blaðamenn fjölmenntu á vatnið, vandlega dúðaðir.
Blaðamenn fjölmenntu á vatnið, vandlega dúðaðir.
Volvo V90 CC er ætlaður ævintýra- og útivistarfólki.
Volvo V90 CC er ætlaður ævintýra- og útivistarfólki.
Sparneytinn, öruggur og ósköp laglegur á sinn hátt. Vetrarlandslagið fer …
Sparneytinn, öruggur og ósköp laglegur á sinn hátt. Vetrarlandslagið fer V90 CC ákaflega vel.
XC90 var ekki síður lipur á ísnum og lét vel …
XC90 var ekki síður lipur á ísnum og lét vel að stjórn miðað við aðstæður.
Baksvipurinn er sígildur, lágstemmdur og jafnvel heimilislegur.
Baksvipurinn er sígildur, lágstemmdur og jafnvel heimilislegur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: