Horfa til himna og sýna hóflega bjartsýni

Fyrsta frumgerð sjálfakandi bíls Volkswagen, Sedric, er sýndur fyrsta sinni …
Fyrsta frumgerð sjálfakandi bíls Volkswagen, Sedric, er sýndur fyrsta sinni opinberlega, í Genf. AFP

Í nýliðnum marsmánuði lágu leiðir margra til Genfar í Sviss. Tilefnið var 87. alþjóðlega bílasýningin þar í borg. Er hún ein stærsta sýning sem fram fer í veröldinni ár hvert og þar kappkosta bílaframleiðendur að sýna nýjustu afkvæmi bílsmiðja sinna.

Um leið og gestir og bílaáhugamenn dást að allt frá fagurgerðum fjölskyldubílum upp í rennilegustu lúxusbifreiðar fer sýningin fram með bakgrunni deilna um mengun frá bílum í heimi aukinnar meðvitundar um nauðsyn þess að vernda umhverfið.

Eitt helsta aðdráttaraflið á sýningunni er farartæki að nafni Pop.Up sem er þeim kostum búið að geta ferðast bæði á jörðu niðri og í loftinu. Er það þróunarbíll sem hönnunarfyrirtækið Italdesign og flugvélaverksmiðjurnar Airbus vinna að í sameiningu. Gengur það fyrir rafmagni einu saman og er því mengunarfrítt með öllu. Hugmyndin er að Pop.Up létti á venjulegri umferð í stærri borgum og telja fróðir hugmyndina raunhæfa og að farartækið geti orðið tilbúið til fullrar notkunar eftir um áratug.

Farþegahylkið, sjálfur bíllinn, er úr koltrefjum, 2,6 metra langt, 1,4 metrar á hæð og 1,5 á breidd. Tengist það fjögurra snúðhreyfla grind og er þar með orðið til fljúgandi farartæki er skutlar fólki á leið úr eða í vinnu skjótt yfir fullar götur og torg og fjölmenn svæði. „Þetta verður þægilegasta leiðin til að ferðast um borgir, og ég held líka sú ómótstæðilegasta,“ sagði fulltrúi Airbus, Mathias Thomsen, á sýningunni í Genf.

Önnur framúrstefnuleg borgarafarartæki sem vekja athygli þar eru rafbílarnir Mitsubishi eX og Toyota i-TRIL og Tamo Racemo, sportbíll indverska bílsmiðsins Tata. Fyrir utan nýstárlega hugmyndabíla er því spáð að mesta almenna athygli á Genfarsýningunni veki svonefndir „crossover“-bílar (CUV), sem eru nokkurs konar blanda af jeppum (SUV) og hefðbundnum farþegabílum.

Í Genf hafa helstu bílaframleiðendur heims, þrátt fyrir andrúm pólitískrar óvissu, látið í ljós hóflega bjartsýni um afkomu greinarinnar í ár. Kaup frönsku samsteypunnar PSA Peugeot-Citroën á dótturfélagi General Motors í Evrópu, Opel og Vauxhall, var mál málanna í upphafi sýningarinnar, en þau voru staðfest daginn sem hún var opnuð. Með samrunanum verður til annar stærsti bílaframleiðandi Evrópu, á eftir VW-samsteypunni.

Þar sem bílasala í Evrópu er svo gott sem að verða sú sama og árið 2008 telja bílaframleiðendur sig vera komna út úr afleiðingum banka- og fjármálakreppunnar alþjóðlegu sem þá reið yfir. Hafði kreppan djúpstæð áhrif á bílaframleiðsluna.

„Markaðurinn var stöðugri 2017, vöxturinn lítils háttar og það er staða sem hentar okkur vel,“ sagði Peugeot-stjórinn Carlos Tavarez í upphafi sýningarinnar. „Mikilverðast er að arðsemi greinarinnar haldi áfram, að við getum tekið öll áföll og sveiflur á markaði. Eins og er sjáum við engar slíkar hindranir,“ bætti hann við. Jürgen Stackmann, sölustjóri Volkswagen, tók í sama streng. „Við búumst við stöðugleika á Evrópumarkaði í ár.“

Sala GM á Evrópusmiðjum sínum á sér stað á tímum vaxandi stjórnmálaóvissu í framhaldi af forsetakosningunum í Bandaríkjum og ráðgerðra kosninga í Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi. Er óvissan um niðurstöður þeirra talin geta virkað til hins verra á neytendur og afstöðu þeirra til afkomu sinnar, og bitnað á hagvexti. Eins og fyrr segir eru bílaframleiðendur almennt á því að árið verði þeim hagstætt. Og Fiat Chrysler-stjórinn Sergio Marchionne biður menn um að hafa hlutina í réttu samhengi.

„Mér finnst heldur langt gengið að segja gamla meginlandið bjóða fjölþjóðafyrirtækjum upp á pólitískar hættur,“ sagði Marchionne og gaf til kynna að ótti við slíka hættu hefði ráðið því að GM dró sig út úr Evrópu. Forstjóri Toyota í Evrópu, Johan van Zyl, var svartsýnni en ítalski kollegi hans. „Við okkur blasir margs konar óvissa í Evrópu sem mun hafa neikvæð áhrif,“ sagði hann og kvaðst ekki búast við nema að hámarki eins prósents söluaukningu í Evrópu í ár.

Í fyrra voru nýskráningar á svæði Evrópusambandsins (ESB) 14,64 milljónir, sem var 6,8% aukning frá árinu áður. Þetta kætti bílaframleiðendur en andinn í þeim var öllu verri fyrir ári, er skuggi útblásturshneykslis Volkswagen grúfði yfir bílgreininni. Það hneyksli hefur orðið til að auka áherslu bílsmiða á losunarmálin svo að þeir geti uppfyllt stöðugt strangari mengunarkröfur.

Blasir nú við bílaframleiðendum að þurfa að þróa vélar sem losa ekki meira en sem nemur 95 grömmum af koldíoxíði á kílómetra í síðasta lagi árið 2021. Til samanburðar hljóðaði sú krafa upp á 130 g/km árið 2015. Þrátt fyrir áhersluna á aukna sparneytni gleðjast margir samt í Genf yfir glysinu og glamúrnum í formi splunkunýrra ofurbíla. Í þeim hópi eru McLaren 720S, 710 hesta ofurbíll byggður á álgrind í stað koltrefja áður; Mercedes-AMG GT hugmyndabíllinn með 805 hesta tvinn-aflrás; Rolls-Royce Ghost Elegance með óvenjulegu lakki sem tók tvo mánuði að þróa, en í því eru muldir þúsund gimsteinar í fínan salla; hreinn hugmyndarafbíll frá Bentley, svonefndur EXP 12 Speed 6e; Lamborghini Huracan Performante sem nýlega sló met Porsche 918 Spyder í Nürburgring-brautinni frægu, með 640 hesta V10-vél og fjórhjóladrifi; 2018 útgáfa Porsche 911 GT3 með 4,0 lítra venjulegri 500 hestafla vél með sex flatstrokkum; Infiniti Q60 Black S, sem er meðal annars með KERS-aflheimtukerfi frá formúluliði Renault auk 500 hesta 3,0 lítra tvíforþjappaðrar V6-vélar; Audi RS5 með 2,9 lítra 444 hesta V6-vél með tveimur forþjöppum sem fengin er frá Porsche; og loks Aston Martin AMR, annars vegar 592 hesta Rapide AMR og hins vegar 500 hesta Vantage AMR Pro. Síðarnefndi bíllinn verður einungis til brúks á kappakstursbrautum og af honum verða smíðuð aðeins sjö eintök. Af Rapide AMR verða hins vegar framleidd 210 eintök.

Alls sýna 180 bílgreinafyrirtæki í Genf. Sýningunni lýkur 19. mars. Í fyrra voru gestir hennar 687.000.

agas@mbl.is

Toyota i-TRIL re óvenjulegt framtíðarfarartæki.
Toyota i-TRIL re óvenjulegt framtíðarfarartæki.
Hinn nýi jeppi Subaru XV á bási sínum í Genf.
Hinn nýi jeppi Subaru XV á bási sínum í Genf.
Opel Crossland X
Opel Crossland X
Porsche sýnir nýjan bíl í Genf, Panamera Sport Turismo.
Porsche sýnir nýjan bíl í Genf, Panamera Sport Turismo.
Meira og meira fer fyrir Kínverjum á sviði bílaframleiðslu. Í …
Meira og meira fer fyrir Kínverjum á sviði bílaframleiðslu. Í Genf kynnir fyrirtækið Techrules þennan rafbíl að nafni REN.
McLaren sýnir fyrsta annarrar kynslóðar ofursportbíla sinna í Genf. Þar …
McLaren sýnir fyrsta annarrar kynslóðar ofursportbíla sinna í Genf. Þar stendur McLaren 720S hróðugur á sínum bás.
Bæði er krökkt af bílum og gestum á bílasýningunni sem …
Bæði er krökkt af bílum og gestum á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Genf. Þar eru lúxusbílar og svonefndir „crossover-bílar í aðalhlutverki. AFP
Hugmyndabíll franska bílsmiðsins DS , E-Tense, vekur athygli sýningargesta í …
Hugmyndabíll franska bílsmiðsins DS , E-Tense, vekur athygli sýningargesta í Genf.
Pop.Up hugmyndafarartæki Italdesign og Airbus hefur vakið athygli í Genf. …
Pop.Up hugmyndafarartæki Italdesign og Airbus hefur vakið athygli í Genf. Það getur ekið á venjulegum vegum og ferðast um loftin blá ef svo vill.
Emerson Fittipaldi EF7 dró að sér talsvert af áhorfendum enda …
Emerson Fittipaldi EF7 dró að sér talsvert af áhorfendum enda tilkomumikill að sjá. AFP
Cadillac Escala í Genf
Cadillac Escala í Genf
Bugatti Chiron stóð fyrir sínu í Genf.
Bugatti Chiron stóð fyrir sínu í Genf.
Indverski bílsmiðurinn Tata sýndi sportbílinn Tamo Racemo Sports Coupe í …
Indverski bílsmiðurinn Tata sýndi sportbílinn Tamo Racemo Sports Coupe í Genf.
Renault Trezor tilraunabíllinn frá óvenjulegu sjónarhorni í Genf.
Renault Trezor tilraunabíllinn frá óvenjulegu sjónarhorni í Genf.
Speedback GT frá David Brown Automotive er virðulegur á sínum …
Speedback GT frá David Brown Automotive er virðulegur á sínum stalli í Genf. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: