Nokkuð um að bílum sé snúið við á hafnarbakkanum

Bílar hrannast upp í Sundahöfn vegna tafa á afgreiðslu.
Bílar hrannast upp í Sundahöfn vegna tafa á afgreiðslu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrst og fremst er það stóraukinn innflutningur ökutækja sem hefur það í för með sér að biðtími eftir forskráningum hefur lengst. Þann 30. apríl var búið að forskrá rúmlega 12.000 ökutæki frá áramótum, miðað við rúmlega 9.000 í fyrra. Árið 2016 var hins vegar metár í Íslandssögunni hvað varðar forskráningar nýrra ökutækja hér á landi.“

Þannig mælir Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, er hann útskýrir fyrir lesendum bílablaðs Morgunblaðsins miklar tafir sem verið hafa á innflutningi bíla, en þær hafa valdið bæði bílkaupendum og bílaumboðum talsverðum ama. Vaxandi beinn innflutningur einstaklinga á bílum hefur aukið á vandann og skýrir tafirnar að hluta, að sögn Þórólfs.

„Einnig hefur afgreiðslutími einstakra forskráninga lengst, vegna þess að mikið er um innflutning annarra en bílaumboðanna. Það er að einstaklingar flytji inn ökutæki sem ekki eru til dæmis gerðarviðurkennd, áður skráð annars staðar, jafnvel með tjón. Mikill fjöldi dráttarvéla, vinnuvéla, vöru- og hópferðarbifreiða hefur einnig lengt afgreiðslutímann því slík ökutæki eru öll mjög sérstök og fara þarf yfir mörg öryggis- og mengunarvarnaratriði.

Forskráning ökutækja er nákvæmnisverk sérfræðinga og því tekur þjálfun nýrra starfsmanna mikinn tíma, auk þess sem ekki eru fjárveitingar til þess,“ segir Þórólfur.

- Hvernig eykur innflutningur einkaaðila á vandann?

„Flækjustigið er meira og einnig þarf miklu meiri upplýsingagjöf til þessara aðila og leiðsögn við frágang umsóknar, tilurð upprunavottorða, farmbréfa og fleiri skjala. Ein meginástæða þessa er að einstaklingar eru að flytja inn ökutæki í fyrsta skipti og þekkja því eðlilega ekki ferlið,“ segir Þórólfur.

Innflutningur á bílum hefur margfaldast á nokkrum árum, en fyrstu fjóra mánuðina 2013 var forskráning ökutækja einungis þriðjungur þess sem er í ár. Þórólfur segir þessa gríðarlegu aukningu valda því að bið eftir skráningu hefur lengst frá því sem áður var. Fjöldi lögbundinna frídaga í kringum páska reyndi enn frekar á biðlundina. Samgöngustofa hafi mikinn skilning á þeirri röskun sem þetta hefur haft í för með sér fyrir innflytjendur ökutækja. Fram til þessa hafi verið brugðist við með aukinni yfirvinnu starfsfólks í skráningum, auk þess sem aðstoð hefur verið fengin frá öðrum deildum til að sinna verkefninu en það hefur ekki dugað til að mæta þessari miklu fjölgun skráninga.

Í því skyni að bregðast enn frekar við ástandinu hefur nú verið gerð sérstök aðgerðaáætlun sem miðar að því að mæta þessari fjölgun skráninga og flýta þeim eins og kostur er. Annars vegar miðar áætlunin að tafarlausu viðbragði og hins vegar að lausn til lengri tíma. Meiri fjármunum en gert hafði verið ráð fyrir verður ráðstafað til hugbúnaðarþróunar, í því skyni að flýta rafrænum lausnum sem hafa verið í vinnslu um tíma. Þessar hugbúnaðarlausnir fela það í sér að bílaumboð muni sjálf geta forunnið forskráningar fyrir innflutt ökutæki og þar með minnkað álag og stytt bið annarra innflytjenda,“ segir Þórólfur.

- Á bílainnflutningur einstaklinga eftir að aukast?

„Bílaumboðin spá auknum vexti í sínum tölum og okkur þykir líklegt að það sama eigi við um einkainnflutninginn. Samgöngustofa hefur enga sérstaka skoðun á því hvers vegna einkainnflutningurinn eykst.“

- Hvers konar bíla eru einkaaðilar annars að flytja inn? Nýja bíla eða notaða? Fólksbíla eða atvinnubíla? Rafbíla eða hefðbundna bíla?

„Öll flóran kemur þarna við sögu,“ svarar Þórólfur Árnason. Spurður hvort dæmi séu um að bílum sé snúið við á hafnarbakkanum segir hann:

„Já, nokkuð er um það. Bæði geta það verið ökutæki sem ekki uppfylla öryggis- eða mengunarkröfur og einnig ökutæki sem innflytjanda tekst ekki að afla nauðsynlegra skjala fyrir.“

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: