Dró Airbus A380 léttilega

Porsche er ekki fyrsta farartækið sem kemur mönnum í hug þegar flytja þarf eða færa til heilmikið hlass. Því hefur þýski sport- og lúxusbílasmiðurinn ákveðið að breyta – og það með snjallri brellu.

Porsche fékk franska flugfélagið Air France í lið með sér og sendi Cayenne-jeppa út á Parísarflugvöllinn Charles de Gaulle til að toga stærstu farþegaþotu heims, Airbus A380. Vegur hún 285 tonn en Cayenne-bíllinn aðeins um 2,2 tonn, eða meira en hundrað sinnum minna. Í leiðinni skyldi reynt við heimsmet í flugvéladrætti.

Fyrir þá sem ekki hafa það á hreinu er A380 ein af allra stærstu flugvélum sem smíðaðar hafa verið. Farþegarýmið er á tveimur hæðum og er hún talsvert stærri en Boeing 747. Í raun er aðeins ein flugvél stærri, rússneska vöruflutningaflugvélin Antonov An-225 Mriya.

En þrátt fyrir gríðarlegan stærðar- og þyngdarmun reyndist Cayenne-jeppinn fær um að draga hana hina tilteknu vegalengd sem metið er miðað við, en hún er 42 metrar. Veltir þú því nú fyrir þér, lesandi góður, hvort Porsche hafi sett metið með dísilvél eða bensínvél, þá er svarið já í báðum tilfellum.

Fyrst var látið á dráttinn reyna á Cayenne S Diesel en 4,1 lítra V8-vél hans er 380 hestöfl og skilar 630 punda torki á fetið. Gekk það að óskum og þá var beislið fest við Cayenne Turbo S með 4,8 lítra V8-bensínvél sem skilar 560 hestöflum rúmlega og býður upp á 590 punda tork. Hvorugum bílnum var breytt neitt fyrir tilraunina, þeir komu beint úr útstillingarglugga Porsche. Eina sem bætt var við var sérstök festing fyrir dráttarkúlu þeirra. Til Parísar var þeim ekið frá London og að metdrættinum loknum fékkst staðfest að þeim hefði ekki orðið meint af glímunni við risaþotuna því þeim var ekið vandræðalaust til baka til London.

Systurfyrirtæki Porsche, Volkswagen, stóð fyrir uppátæki af sama toga í byrjun aldarinnar. Touareg sem hlaðinn var um sjö tonnum af ballest var látinn spreyta sig á júmbóþotunni 747. Hin fimm lítra V10 TDI dísilvél hans bauð upp á aðeins 309 hestöfl. Samt sem áður dugðu þau vel til að draga 155 tonna þunga flugvélina 150 metra.

Því má svo við þetta bæta að Toyota Tundra-pallbíll átti ekki í neinum vandræðum með að draga bandarísku geimferjuna Endeavour lokaspölinn að varanlegu heimili hennar í Los Angeles haustið 2012.

Segir þetta nokkuð annað en að menn eigi eftir að taka upp á frekari risadrætti sem þessum?

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: