Norður á draumkenndum Ioniq

Hraðhleðslustöðin við Staðarskála í Hrútafirði er mjög sýnileg frá þjóðveginum. …
Hraðhleðslustöðin við Staðarskála í Hrútafirði er mjög sýnileg frá þjóðveginum. Hún er þó yst á bílstæðunum við miðstöðina sem er nokkur ókostur. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson

Nú í vor stóð Orka náttúrunnar, í samstarfi við fleiri fyrirtæki, fyrir uppsetningu þriggja hleðslustöðva á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur en áður hafði fyrirtækið m.a. komið upp slíkri stöð í Borgarnesi.

Uppsetning stöðvanna þriggja, sem komið var fyrir við útsölustaði N1 í Hrútafirði og á Blöndósi, ásamt stöð við háspennumannvirkin ofan Varmahlíðar, veldur straumhvörfum í notkunarmöguleikum rafbíla sem í dag hafa flestir raundrægni sem nemur 150 til 300 kílómetrum. Leiðin milli Borgarness og Akureyrar er 316 kílómetrar en nýju stöðvarnar tryggja að aldrei er lengra en tæpir 100 kílómetrar milli stöðva. Lengst er leiðin milli Varmahlíðar og Akureyrar en styst er milli stöðvanna á Blönduósi og í Varmahlíð eða rétt rúmir 50 kílómetrar.

Öllum stjórntækjum er haganlega fyrir komið og snertiskjárinn er góður.
Öllum stjórntækjum er haganlega fyrir komið og snertiskjárinn er góður. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Á síðustu árum hefur orðið vart við að helstu ókostirnir sem fólk hefur séð við rafbíla séu þeir að ekki sé hægt að komast til Akureyrar með góðu móti þar sem hleðslustöðvanet hefur skort á leiðinni. Sú röksemd virðist í sjálfu sér ákveðinn fyrirsláttur, enda fæstir almennt í förum milli höfuðstaðanna tveggja. Fremur hefur mátt skilja röksemdina sem sálræna hindrun og tregðu til að viðurkenna að í 90% tilvika hefur fólk lítið við meira en 50-100 kílómetra daglega drægni að gera fyrir heimilisbílinn. Það er hins vegar ánægjulegt að nú skuli hinni sálrænu hindrun rutt úr vegi og því líklegra að fólk slái til og stígi skref inn í framtíð orkusjálfbærni, laust undan útblæstri eitraðra gróðurhúsalofttegunda og himinhárra bensínreikninga (þótt Costco hafi dregið aðeins úr vægi þessarar tilteknu röksemdar sem stendur).

Ný þrenna frá Hyundai

Á dögunum kynnti BL á markað nýjustu viðbótina við Hyundai-fjölskylduna. Er þar á ferðinni bíll sem hlotið hefur heitið Ioniq og er það millistærðar, fimm manna fjölskyldubíll sem keppir við bíla á borð við Subaru Levrog, Toyota Avensis og Kia Optima um hylli fólks. Það sem gerir komu Ioniq á markaðinn nokkuð sérstaka er að bíllinn er strax frá upphafi kynntur í þremur útgáfum sem allar byggjast að hluta eða í heild á rafaflsrásum en nálgunin að baki hverri þeirra er sérstök.

Á heimleiðinni reyndist biðröð í hraðhleðslustöðina í Borgarnesi og tveir …
Á heimleiðinni reyndist biðröð í hraðhleðslustöðina í Borgarnesi og tveir bílar á undan. Tafði það nokkuð fyrir. mbl.is/Hanna


Þannig er hægt að kaupa bílinn í tvinnútgáfu (hybrid) þar sem er rafmótor og sjálfstæð rafhlaða sem bíllinn hleður sjálfur inn á og þau styðja við hefðbunda bílvél, tengiltvinnbíl þar sem rafaflsrás og rafhlaða gera ökumanni kleift að aka tiltekinn fjölda kílómetra á rafmagninu einu saman eða í bland við bensín, og svo hreinan rafbíl sem hlaðinn er með hefðbundnum hætti eins og aðrir rafbílar, annaðhvort í hæghleðslu yfir lengri tíma eða hraðhleðslu sem tekur 25-35 mínútur með 100 Kw hleðslubúnaði.

Reyndur á leiðinni norður

Þegar þessi nýja þrenning var kynnt til sögunnar reyndist nær ómótstæðilegt að kynnast hreinu rafmagnsútgáfunni nánar og að reyna bílinn á hinni nýopnu leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hann hentar einkum, samkvæmt lýsingu frá framleiðanda, ágætlega til slíks reynsluaksturs þar sem rafhlaðan, 28 kwH, er gefin upp með 280 kílómetra hámarksdrægni og er þar miðað við hina svokölluðu NEDC-mælingu (New European Driving Cycle). Sú mælistika liggur þó undir ámæli, ekki aðeins þegar kemur að mati á drægni rafbíla heldur einnig þegar mat er lagt á drægni bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Í miðjustokki er að finna hnappa sem tryggja einfalda stjórnun …
Í miðjustokki er að finna hnappa sem tryggja einfalda stjórnun helstu aksturseiginleika og kemur þessi búnaður afar vel út í notkun. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Hefur mörgum þótt eðlilegra að miða við hina svokölluðu EPA-mælingu sem Náttúruverndarstofnun Bandaríkjanna stendur fyrir. Metur hún drægni bílsins vera 200 km. Þegar drægni rafbíla er annars vegar getur einnig verið skynsamlegt að líta til þess hvaða drægni þeir ná samkvæmt mælingum í Suður-Kóreu, í svokallaðri SKC-mælingu. Samkvæmt henni er drægni Hyundai Ioniq 169 km. Gera má ráð fyrir að raundrægni bílsins, við þokkalegar aðstæður hér á landi, liggi einhversstaðar á milli EPA- og SKC-mælingarinnar.

Lagt upp í langferð

Á fyrsta degi júnímánaðar var lagt af stað norður og voru ferðalangarnir tveir, ásamt takmörkuðum farangri enda ætlunin að snúa til baka til höfuðborgarinnar að morgni næsta dags. Bíllinn var hlaðinn í 94% og er það í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda en það fer betur með rafhlöður að þær séu alla jafna ekki hlaðnar upp í topp.

Framstuðari er sérstakur í útliti en hann tryggir litla loftmótstöðu. …
Framstuðari er sérstakur í útliti en hann tryggir litla loftmótstöðu. Í Hyundai-merkinu eru fjarlægðarskynjarar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Strax þegar lagt var af stað kom í ljós að nær alla leiðina norður var spáð strekkingsvindi úr norðri. Áttu þær óhagstæðu aðstæður eftir að hafa töluverð áhrif á ferðalagið enda fer mun meiri orka í að knýja bíl áfram í miklum mótvindi en logni eða meðvindi. Reyndar státar Ioniq af því að loftviðnámsstuðull bílsins er aðeins 0,24 og er það með því lægsta sem þekkist hjá bílum í dag. Hið sérstæða grill framan á bílnum, sem er heilt, tryggir þetta litla viðnám meðal annars.

Þar sem ökumaður hafði litla tilfinningu fyrir orkunýtingu bílsins við fyrstu kynni var brugðið á það ráð að skjóta hleðslu á bílinn strax í Borgarnesi þótt stefnan hafi upprunalega verið sú að stoppa fyrst í Staðarskála. Tók um 25 mínútur að fá bílinn úr 55% í 91% hleðslu og gaf mælirinn þá til kynna að 167 kílómetra drægni væri tryggð. Var biðin reyndar ágætlega nýtt til að ljúka við að sporðrenna tveimur pylsum og kaffibolla.

Góður í brekkunum

Var þá lagt af stað upp Borgarfjörðinn og á Holtavörðuheiðina. Reyndist bíllinn í góðu standi til að takast á við töluverða hækkun upp á heiðina í rokinu og gaf 88 kW mótorinn meira en nægt afl til að tryggja þægilegan og átakalausan akstur. Hlóð bíllinn einnig vel inn á sig á leiðinni niður í Hrútafjörðinn.

Stýrishjólið er D-laga og aðgerðahnappar einfaldir og aðgengilegir í notkun …
Stýrishjólið er D-laga og aðgerðahnappar einfaldir og aðgengilegir í notkun fyrir ökumann. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Þar sem vegalengdin milli Borgarness og Blönduóss er 170 km ákváðum við að stoppa einnig í Staðarskála til að hlaða á bílinn og þá kom sér vel að þar á bæ er boðið upp á staðgóða kjötsúpu á sanngjörnu verði. Á meðan náði rafhlaðan á Ioniq að nýju 94% hleðslu eftir að hafa farið niður í 41%.

Vegna roksins og hleðslustoppsins í Staðarskála var orðið ljóst að ekki yrði haldið í þá áætlun að hlaða bílinn aðeins tvisvar á leiðinni norður. Hins vegar renndum við framhjá hleðslustöðinni á Blönduósi og var stefnan sett á Varmahlíð. Þegar þangað var komið sáum við að ekki yrði haldið áfram án frekari hleðslu. Rafhlaðan var komin í 20%. Renndum við inn hjá N1 á hinum þekkta áningarstað í Skagafirði en fundum með engu móti hraðhleðslustöðina sem ON hefur sett upp á staðnum. Leituðum við að stöðinni í appinu sem fyrirtækið hefur sent frá sér.

Illa merkt í Skagafirði

Áttuðum við okkur þá á því að hleðslustöðin er, ólíkt hinum stöðunum sem staldrað var á, ekki tengd þjónustumiðstöð af neinu tagi. Hefur henni hins vegar verið komið fyrir við háspennustöð ofan við Varmahlíð, réttum tveimur kílómetrum áður en komið er að byggðinni. Verður að segjast eins og er að stöðin er einkennilega staðsett úr alfaraleið og þá hefur enginn reki verið gerður að því að merkja staðinn með skilti við þjóðveginn.

Endurnýtingarhemlun fer fram með flipum aftan við stýrishjólið sem er …
Endurnýtingarhemlun fer fram með flipum aftan við stýrishjólið sem er afar þægilegt. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Þannig geta þeir sem hyggjast nýta sér þjónustuna átt erfitt með að átta sig á staðsetningu hennar. Eina skiltið við veginn segir „Tengimannvirki“ og þó að vissulega megi með réttu kalla hraðhleðslustöð tengimannvirki þá er víst að skiltið vísar á annan og öllu kröftugri búnað en stöðina sem slíka. Þarna þarf að gera bragarbót á og þá er einnig nokkuð sérstakt að aka spottann upp að hleðslustöðinni á ómalbikuðum vegi. Þó það geri ekki til á slíkur frágangur lítt skylt við þann nútímalega búnað sem rafbílar hljóta að teljast vera. Hlóðum við bílinn í 91% og var það yfrið nóg fyrir síðasta spottann til Akureyrar en milli Varmahlíðar og bæjarfélagsins eru um 95 km.

Of lengi á leiðinni norður

Ferðin norður tók um sjö klukkustundir og verður það að teljast vel í lagt fyrir ekki meira en tæplega 390 kílómetra leið. Tvennt réð því helst hversu langan tíma aksturinn tók. Annars vegar var það tiltölulega mikil rafmagnseyðsla sem kom til vegna afar óheppilegra ytri skilyrða (bensín- og dísilbílar eyða einnig mun meira eldsneyti í miklum mótvindi), og hins vegar hefði verið hægt að haga hleðslunni á bílinn með skynsamlegri hætti. Sést það m.a. á því að þegar til Akureyrar var komið og stungið í samband fyrir nóttina voru enn 32% eftir á rafhlöðunni. Hefði verið hægt að stytta biðina í Varmahlíð töluvert hefði ökumaður þekkt betur inn á bílinn – en slíku er sjaldnast til að dreifa þegar um reynsluakstur er að ræða.

Morguninn eftir var snúið við og hafði bíllinn þá fengið hleðslu upp í 94% yfir nóttina frá hraðhleðslustöð ON sem er við tónlistar- og menningarmiðstöðina Hof. Hafði undirritaður þá velt nokkuð fyrir sér reynslunni af ökuferðinni norður og var nú stefnan sett á að ná suður á tveimur hleðslum, annars vegar á Blönduósi og hins vegar í Borgarnesi.

Gekk mun hraðar á suðurleiðinni

Gekk sú áætlun öll eftir og ferðin sóttist mjög vel allt þar til komið var í Borgarnes. Þegar þangað var komið reyndust tveir bílar á undan okkur í hraðhleðslustöðinni sem þar er og það verður að teljast mikill veikleiki á innviðum rafbílaþróunarinnar að hver hleðslustöð geti aðeins annað einum bíl í senn. Er það einkum bagalegt í ljósi þess að á stöð eins og í Borgarnesi eru flestir að hlaða inn á bíla sína til þess að auka drægni um 50-100 kílómetra og tekur það um 15-30 mínútur. Finna verður lausn á þessu vandamáli á komandi misserum enda ólíklegt að rafbílaeigendur verði tilbúnir til að greiða fyrir þjónustu á borð við þessa ef bið eftir henni verður talin í tugum mínútna og jafnvel klukkustundum.

Ioniq slær í gegn

Stutt er síðan Hyundai Ioniq var kynntur til sögunnar hér á landi og viðbrögðin munu ekki hafa látið á sér standa. Hefur hver sendingin á fætur annarri selst upp og er svipaða sögu að segja frá Noregi þar sem allir virðast vera að skipta yfir í rafbíl. Þar er biðlistinn eftir Ioniq reyndar talinn í þúsundum og verksmiðjurnar hafa ekki undan að anna eftirspurninni.

En viðtökurnar koma heldur ekki á óvart. Bíllinn er mjög spennandi kostur fyrir þá sem vilja skipta yfir í rafmagnið og lækka rekstrarkostnaðinn hjá sér verulega. Þá er bíllinn fremur stór miðað við marga þeirra rafbíla sem nú eru í boði og því má segja að hann opni nýjar dyr fyrir fjölskyldufólk sem hefur ekki treyst sér til að fara niður í stærðarflokkinn sem Nissan Leaf, Kia Soul og Volkswagen e-Golf fylla.

Þá skemmir verðið heldur ekki fyrir og í dýrustu útgáfunni, sem hlaðin er aukabúnaði, kostar bíllinn tæpar 4,3 milljónir króna.

Þá býr bíllinn yfir mörgum áhugaverðum nýjungum og má þar helst nefna rafstýrt aðgerðaborð í miðjustokki. Hyundai hefur greinilega áttað sig á að rafbíll á 21. öldinni þarf ekki að vera búinn gírstöng sem ökumaður þarf að kljást við til að koma bílnum af stað. Eðlilegra er að skipanir um slíkt séu gefnar með einföldum og aðgengilegum tökkum, líkast fjarstýringu.

Þá er vert að nefna búnaðinn sem tryggir sem besta endurnýtingarhemlun bílsins. Er hann aftan við stýrishjólið sem gefur ökumanni tækifæri til að hægja á ferð bílsins með einföldum hætti án þess að taka hendurnar af stýrinu. Er búnaðurinn stigskiptur og nýtist til dæmis vel þegar hægt er á bílnum við gatnamót eða áður en komið er að hringtorgum. Virk notkun búnaðarins eykur drægni bílsins og hægir á sliti bremsubúnaðar.

Þegar allt er tekið saman hefur Hyundai kynnt til sögunnar rafbíl sem mun reynast öðrum framleiðendum mikil áskorun að keppa við, ekki síst þegar fyrirtækið mun kynna nýja útgáfu með langdrægari rafhlöðu – hvenær sem að því kemur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: