Áfram styrkist Hyundai í Evrópu

Hyundai Ioniq hefur fengið góðar móttökur.
Hyundai Ioniq hefur fengið góðar móttökur.

Hyundai heldur áfram að styrkja stöðu sína sem helsti asíski bifreiðaframleiðandinn á Evrópumarkaði.

Vöxtur fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins í ár var í samræmi við áætlanir þegar alls voru um 271 þúsund bílar nýskráðir samkvæmt upplýsingum frá Samtökum evrópskra bifreiðaframleiðenda (ACEA). Er það 3,6 prósenta aukning samanborið við sama tíma í fyrra.

Meðal bílgerða sem Hyundai þakkar árangurinn eru hinn nýi fimm dyra i30 Wagon auk þess sem miklar vonir eru bundnar við i30 N og i30 Fastback sem fara á markað síðar í þessum mánuði á helstu lykilmörkuðum Evrópu.

Ef litið er til söluþróunar á einstökum mörkuðum Evrópu á fyrri helmingi ársins óx sala á Hyundai um 18% í Frakklandi, í Póllandi um 17% og á Spáni um 10% svo dæmi séu tekin, enda þótt Bretland sé áfram stærsti og mikilvægasti einstaki Evrópumarkaður Hyundai.

Tucson er sem stendur söluhæsta bílgerð Hyundai í Evrópu og hafa alls um 250 þúsund bílar verið skráðir frá 2015 þegar hann kom á markað. Einnig er mikil eftirspurn eftir i10, i20 og i30 auk þess sem Ioniq hefur fengið mjög góðar móttökur, en þar geta kaupendur valið um þrjár mismunandi orkugjafa í samræmi við mismunandi þarfir, að því er fram kemur ítilkynningu. Í Evrópu eru nú rúmlega tíu þúsund Ioniq komnir á götuna.

Á næstu fimm árum mun Hyundai kynna 30 nýja bílgerðir í Evrópu til að styðja við aukna eftirspurn neytenda eftir bílum fyrirtækisins og það markmið Hyundai að verða helsti asíski bílaframleiðandinn í álfunni þegar á árinu 2021.

mbl.is