Verður þarinn lykillinn að betri rafhlöðum?

Enginn skortur er á þara, ef tilraunirnar skyldu gefa góða …
Enginn skortur er á þara, ef tilraunirnar skyldu gefa góða raun. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Í leitinni að bestu efnunum til að nota í rafhlöður hafa vísindamenn komist að því að litíum og brennisteinn eru, a.m.k. fræðilega, ein besta efnablandan til að geyma orku.

Þannig blanda hefur um tvöfalt meiri orkuþéttleika en litíum-jónarafhlöður en ætti að vera mun ódýrari í framleiðslu enda brennisteinn ekki dýrt hráefni. Gallinn er sá, að sögn tæknivefsíðunnar Engadget, að brennisteinn leysist auðveldlega upp og hafa því litíum-brennisteinsrafhlöður stuttan líftíma.

Þarinn styrkir brennisteininn

Nú hafa vísindamenn við rannsóknastofuna Berkely Lab hjá Kaliforníuháskóla hugsanlega fundið leið til að stórbæta litíum-brennisteinsrafhlöður með efni sem unnið er úr þara.

Þaraefnið virkar sem nokkurs konar bindiefni og kemur í veg fyrir að brennisteinninn leysist upp. Vonast rannsóknarmennirnir til að með þaranum megi búa til litíum-brennisteinsrafhlöður sem ráða við mörg þúsund hleðslur.

Litíum-brennisteinsrafhlöður hafa fleiri kosti en lágt verð og mikinn orkuþéttleika. Litíum- og brennisteinsblandan er tiltölulega létt og væri því kjörin í dróna og önnur rafknúin loftför. Ef litíum-brennisteinsrafhlöður verða notaðar í rafmagnsbílum ætti verð þeirra að lækka, og bílarnir líka verða léttari og þar af leiðandi komast lengra á jafnmikilli hleðslu.

Vísindamennirnir vilja ekki vera of bjartsýnir að svo stöddu, og eru tilraunir enn á fyrstu stigum. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: