Daimler innkallar þrjár milljónir bíla

Mercedes-Benz B-Class.
Mercedes-Benz B-Class.

Daimler, móðurfélag Mercedes-Benz, hefur ákveðið að innkalla á fjórðu milljón bíla í Evrópu til að betrumbæta útblásturskerfi bílanna með nýjum tölvuforritum.

Með þessu vonast Daimler til að geta „aukið tiltrúnað“ viðskiptavina en fyrirtækið hefur formlega neitað því að hafa notað tæknibúnað til að villa um fyrir mengunarmælum. 

Uppfærsla hugbúnaðarins nær til bíla sem búnir eru 1,5 lítra og fjögurra strokka hverfilblásinni  OM 607-vélinni. Þá vél er helst að finna í Mercedes A-Class og B-Class módelum. Verður breytingin eigendum bílanna að kostnaðarlausu og tekur rúma klukkustund að framkvæma. Er nýjum forritum ætlað að draga úr losun nituroxíðs í útblæstri vélarinnar. 

Daimler segir innköllunina og breytingarnar gerðar í fullu samstarfi við þýsk yfirvöld. Í síðustu viku funduðu fulltrúar samgönguráðuneytisins með fulltrúum Daimler vegna ásakana á hendur bílsmiðnum um að hann hafi brúkað rafeindabúnað til að bæta útkomu bíla sinna á mengunarprófum. Harðneitar Daimler að slíkt hafi átt sér stað og kveðst myndu berjast gegn slíkum ásökunum með öllum tiltækum lagalegum ráðum.

mbl.is