Dragi úr sírenuflauti

Ónæði þykir af sírenuflauti í París og vill lögreglustjórinn koma …
Ónæði þykir af sírenuflauti í París og vill lögreglustjórinn koma til móts við íbúa með því að draga úr því. Ljósmynd/Wikimedia Commons

Nýjum sýslumanni Parísar þykir lögregluþjónar borgarinnar einum of kappsfullir við að þenja sírendur bíla sinna. Það valdi íbúum ekki bara ónæði heldur og óþarfa áhyggjum nú á tímum neyðarlaga.

Trúr þeirri skoðun sinni hefur Michel Delpuech sýslumaður og yfirmaður lögreglunnar lagt að undirmönnum sínum að draga úr sírenunotkun í störfum sínum og þar með úr hljóðmengun.

Í dreifibréfi til lögreglumanna segist Delpuech vera meðvitaður um álag og kröfur til lögreglunnar og þarfir starfsins en bendir á að það sé engin þörf að þenja sírenur í öllum aðgerðum. Því bæti þeim að takmarka sírenunotkun við aðgerðir þar sem þeirra væri í raun þörf.

„Íbúarnir kvarta undan hávaðanum og ónæðinu og segja ofnotkun sírena bæði lögreglu-, sjúkra- og slökkviliðsbíla skjóta fólki skelk í bringu,“ segir í bréfi lögreglustjórans. Hann segir að verkefni eins og að vaktaskipti og erindisferðir kalli ekki á notkun sírenu. Segist hann munu grípa til ráðstafana til að takmarka notkun þeirra ef þörf krefur.

Talsmaður lögreglufélagsins Alliance gagnrýnir útspil lögreglustjórans  í blaðinu Le Monde. „Lögregluþjónar eru engir krakkar og þeir brúka sírenur til að komast á vettvang þar sem líf kann að vera í hættu,“ segir talsmaðurinn, Jean-Claude Delage. Hann bætti því við að yfirlýsingar sem þessar angri lögreglumenn sem álag væri mikið á vegna hryðjuverkaógnarinnar, skipulegrar glæpastarfsemi og undirmönnunar.


mbl.is