Renault-Nissan stærst bílsmiða í hálfleik

Þegar uppgjör helstu bílaframleiðenda heims fyrir fyrri helming yfirstandandi árs lá fyrir stóð þetta upp úr: Volkswagen (VW) er fallið úr toppsætinu og þar trónir nú Renault-Nissan samsteypan.

Hvort sem þetta kemur á óvart eður ei þá hefur það legið fyrir um skeið að takmark Renault var að ná því að teljast stærsti bílaframleiðandi heims við næstu áramót.

Fransk-japanska samsteypan afhenti 7% fleiri bíla á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili 2016. Það er að þakka öflugri sókn Nissan á Japansmarkaði og velgengni Renault í Asíu og Afríku. Í heild seldi Renault-Nissan 5.268.079 bíla frá áramótum til júníloka.

Í öðru sæti var Volkswagen-samsteypan með 5.155.591 bíl og í því þriðja Toyota með 5.129.000 eintök. VW seldi 0,4% fleiri bíla í ár en í fyrra og er það fyrst og fremst að þakka aukinni eftirspurn eftir Seat og Bentley. Jókst sala á Seat um 13,7% og Bentley um 30,6%. Sala á bílum undir sjálfu VW-merkinu jókst um 0,3% en aftur á móti dróst sala á Audi-bílum saman um 4,7%.

Sala Toyota-steypunnar á heimsvísu - að meðtalinni sölu dótturfyrirtækjanna Daihatsu og Hino Motors - jókst um 3% og hefur aldrei verið meiri á fyrri árshelmingi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Renault-Nissan samsteypan mælist sú stærsta í heimi en inn í hana rann Mitsubishi í október sl. Framlag þess framleiðanda í ár er 495.000 eintök. Stærstu markaðir Mitsubishi eru í Bandaríkjunum og Kína en söluhæstu bílar fyrirtækisins eru Outlander jeppinn og Pajero Sport.

Bandaríski bílrisinn General Motors var stærsti bílaframleiðandi heims í 77 ár í röð, eða þar til Toyota velti honum úr sessi árið 2008. GM sat síðast í efsta sætinu 2011. Frá og með 2014 hafa Toyota og Volkswagen háð einvígi um toppsætið og skipst á því með litlum mun. Hreppti VW toppsætið 2016 eftir að Toyota hafði mælst söluhæsti bílsmiður heims fjögur ár í röð.

mbl.is