Bitastæð bílmódel bíða gesta í Frankfurt

Það vantar yfirleitt ekki á frumlegheitin er bílaframleiðendur vegkja athygli …
Það vantar yfirleitt ekki á frumlegheitin er bílaframleiðendur vegkja athygli á nýjungum sínum á stórum bílasýningum.

Stærsta bílasýning heims á þessu ári fer fram í Frankfurt í Þýskalandi í næsta mánuði. Er það í 67. sinn sem til sýningarinnar er efnt þar í borg. Hún verður opin almenningi 16. til 24. september.

Svo sem endranær munu þar ýmsar athyglisverðar nýjungar líta dagsins ljós og fást mun greinargóð mynd af framtíðaráformum stórra bílsmiða sem smárra.

Heimaframleiðendurnir allir – BMW, Volkswagen, Mercedes, Porsche og Audi – mæta með eitt og annað í veisluna og erlendir bílsmiðir munu flestir hverjir ekki láta sitt eftir liggja í frumsýningum.

Ný bílamódel og hrikalegir hugmyndabílar draga fólk að sýningum sem þessari og enginn hörgull verður á slíku á sýningunni í Frankfurt að þessu sinni. Stemningin verður kannski ekki alveg eins mikil og áður þar sem þýskir bílaframleiðendur sæta flestir rannsókn vegna útblásturshneykslis sem við Volkswagen er kennt en hefur teygt sig til annarra þýskra framleiðenda líka og virðist seint ætla að ljúka. Fyrirtæki þessi hafa verið hryggjarstykki í þýsku efnahags- og atvinnulífi.

Margir frábærir bílar voru kynntir fyrst til sögunnar á sýningunni fyrir tveimur árum, 2015. Svo sem Alfa Romeo Giulia Quadrifoglio, Volkswagen Tiguan, Jaguar F-Pace, Suzuki Baleno og Bentley Bentayga svo nokkrir séu nefndir. Athygli vekur að mikilvægir bílaframleiðendur eins og Fiat Chrysler-samsteypan (FCA) – með merkjum eins og Fiat, Alfa Romeo, Chrysler, Dodge og Jeep, hafa ákveðið að sitja heima að þessu sinni í stað þess að sýna sig í Frankfurt. Hið sama er að segja um Peugeot, Nissan, Volvo, Mitsubishi, Morgan, Infiniti, DS og Alfa Romeo.

Lúxusbílar í forgrunni

Eins og venja er til skyggja þýskir bílsmiðir á aðra á sýningunni á heimavelli sínum og verið getur að öðrum mislíki að falla í skuggann og bíði þess vegna betra tækifæris til að sýna sig og sitt.

Meðal merkilegs og áhrifamikils úrvals í Frankfurt má nefna að Aston Martin boðar nýja útgáfu af Vantage minus og annar breskur lúxusbíll, endurhannaður frá grunni, er Bentley Continental GT. Þriðji breski eðalbílasmiðurinn er Jaguar sem frumsýndi E-Pace-jepplinginn í síðasta mánuði og hermt er að hann mæti til leiks í Frankfurt með endanlega rafútgáfu af I-Pace sem er á leið í raðsmíði.

Hyundai mun birtast með nýja útgáfu af smájeppanum Kona og stallbróðirinn Kia með sína útgáfu af bíl á sama undirvagni sem fengið hefur heitið Stonic. Hyundai mun einnig bjóða upp á i30 N-smábílinn með 271 hestafls vél sem bjóða mun VW Golf R birginn.

Annar öflugur nýr bíll er sportútgáfan Megan RS með nýjum hverfilblásara sem stríða mun GTI-bílum að afli og getu.

Þýskar nýjungar á heimavelli

Frá Honda mun gefa að líta nýja kynslóð af CR-V-jeppanum og spænski bílsmiðurinn SEAT verður með nýjan bíl að nafni Arona auk þess sem nýja útgáfu af Ibiza-módelinu verður að finna á bás hans. Þá mun Suzuki sýna spræka sportútgáfu af Swift, svonefndan Swift Sport með afkastamikilli vél. Loks mun breski bílsmiðurinn Vauxhall sýna Insignia GSi sem er öflugri útgáfa hins nýja Insignia Grand Sport.

Nýr arftaki BMW M5-bílsins verður meðal frumsýningarbíla í Frankfurt.
Nýr arftaki BMW M5-bílsins verður meðal frumsýningarbíla í Frankfurt.


BMW verður umsvifamikill á sýningunni og meðal frumsýninga hans verður fjórhjóladrifni M5-stallbakurinn og GT-útgáfa af 6-seríunni. Þá má búast við rafbíl úr 3-seríunni eða allavega hugmyndaútgáfu hans. Þá er „óvæntri nýjung“ lofað og velta menn vöngum yfir því hvort þar geti verið um að ræða i8 Spyder, X7-jeppling eða tvennra dyra bíl úr 8-seríunni.

Mercedes-Benz mun m.a. sýna X-class-pallbílinn í endanlegri útgáfu, þróunarútgáfu af rafbíl og nýja útfærslu af EQ C-bílnum. Frá sportbíladeildinni AMG hjá Mercedes verður sýndur Project One-ofurbíllinn sem talinn er munu verða meðal þyngdarpunkta sýningarinnar.

Ný kynslóð Cayenne

Þá herma fregnir að Porsche muni frumsýna þriðju kynslóð Cayenne-jeppans og eftirvænting ríkir eftir væntanlegum nýjum smájeppa á bás Volkswagen, svonefndum T-Roc sem er enn á hugmyndastigi. Hann er ögn minni en VW Tiguan.

Audi býður upp á miklar tækninýjungar og þar á meðal A8 sem fyrsta þriðja stigs sjálfekna bílinn sem er sá fyrsti sinnar tegundar í veröldinni. Þá mun Audi sýna blæjubílinn RS5 Cabriolet.

Af öllu þessu – og mörgu öðru ónefndu – má ráða að nóg verður af bitastæðum gripum til sýnis á bílasýningunni í Frankfurt.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: