Allir í rafmagnið

Umhverfissamtökin Greenpeace mótmæla áframhaldandi smíði bíla með brunavélar við innganginn …
Umhverfissamtökin Greenpeace mótmæla áframhaldandi smíði bíla með brunavélar við innganginn að sýningunni í Frankfurt. Segja þau slíka bíla valda umhverfistjóni „Olíuskeiðið er á enda“ segir á borða liðsmanna samtakanna. AFP

Bílasmiðir smáir sem stórir um heim allan eru í auknu mæli að snúa sér að þróun og framleiðslu rafknúinna bíla. Hvatinn að því eru meðal annars nýlegar ákvarðanir Frakka og Breta að banna sölu bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Þá boða Kínverjar slíkt bann hjá sér og gæti það valdið straumhvörfum því þar er að finna stærsta bílamarkað heims.

Þýskir bílsmiðir hafa síðustu daga skýrt frá framtíðaráformum sínum varðandi rafbílasmíði. Í fyrradag, mánudag, sagðist Volkswagen ætla rafvæðast og þannig yrðu öll bílamódel samsteypunnar fáanleg í rafútgáfu í síðasta lagi árið 2030. Sagðist VW að fyrir þann tíma yrðu fáanleg að minnsta kosti ein rafútgáfa af hverju hinna 300 eða svo módela samsteypunnar.

VW áætlar að árið 2025 verði fjórða hvert nýtt bílmódel úr smiðjum þess rafbíll. Með öðrum orðum þýddi það að þrjár milljónir eintaka af hreinum rafbílum renni af færiböndum samsteypunnar þegar árið 2025.

Til Volkswagen-samsteypunnar heyra 12 bílamerki, þar á meðal fólksbílarnir VW, Seat, Skoda, Audi, Bentley og Lamborghini, svo og rútu- og vörubílafyrirtækin MAN og Scania og Ducati mótorhjólasmiðjan.

Daimler boðar stefnubreytingu

Rafbílar eru ríkjandi á bílasýningunni í Frankfurt sem opnaði fyrir …
Rafbílar eru ríkjandi á bílasýningunni í Frankfurt sem opnaði fyrir blaðamönnum í gær og verður opin fyrir almenning frá og með morgundeginum. AFP


Stærsti lúxusbílasmiður heims, Daimler, er að sækja í auknu mæli inn á rafmagnið. Á mánudag sagði forstjórinn Dieter Zetsche að innan fimm ára stæði neytendum til boða annað hvort hrein rafútgáfa eða tvinnútgáfa af hverju einasta módeli Mercedes-Benz. Rétti tíminn væri núna til að hella sér út í rafbílasmíði til að hámarka þá valkosti sem kaupendur að nýjum bílum hefðu.

Alls framleiða fyrirtæki Daimler um 50 bílamódel og sagði Zetsche raunhæft að ætla að rafútgáfurnar yrðu kringum 2025 svipaðar í verði og bílar með brunavél þar sem rafgeymar fyrir rafbíla væru stöðugt að stækka að afköstum og lækka hratt í verði.  

Annar þýskur lúxusbílasmiður, BMW, varð fyrri til að boða rafbílavæðingu smíðisflota síns en Daimler. Sagði BMW að öll módel samsteypunnar myndu fást í rafútgáfu fyrir 2025. Þar á meðal yrðu eðalvagnarnir Rolls Royce og smábílarnir frá Mini. Þegar væri stefnt að smíði 12 rafbíla og 13 tvinnbíla á þessum tíma.

Jaguar með rafjeppa

Sama dag og BMW lét til skarar skríða tilkynnti breski lúxusbílasmiðurinn Jaguar Land Rover að allir bílar fyrirtækisins yrðu fáanlegir sem hreinir rafbílar eða tvinnbílar fyrir árslok 2020. Fyrirtækið kemur á götuna á næsta ári með sinn fyrsta hreina rafbíl, Jaguar I-Pace jeppann.

Loks má geta þess, að Volvo tilkynnti í sumar áform um að hætta smám saman smíði bensínbíla frá og með 2019.  

mbl.is