Margfalda smíði T-ROC jeppans

Volkswagen T-Roc – jeppi í sama stærðarflokki og VW Golf – er tiltölulega nýr á vegunum. Eftirspurn eftir honum hefur farið langt fram úr vonum VW sem brugðist hefur við með því að þrefalda framleiðslu hans.

T-Roc var sýndur fyrsta sinni á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Frankfurt en bíllinn í endanlegri smíðisútgáfu var þó kynntur til sögunnar nokkrum vikum áður. Og hann virðist ætla að slá í gegn.

Volkswagen hefur farið sér hægt í smíði jeppa og þeir aðeins verið tveir þar til nú, eða Touareg og Tiguan. T-Roc virðist velheppnuð viðbót en honum er stefnt gegn bílum í sterkri stöðu á markaði fyrir minni jeppa, svo sem Nissan Qashqai, og fer vel af stað.

T-Roc er smíðaður í Portúgal ásamt Sharan og Alhambra og gerðu upphaflegar áætlar fyrir að 70.000 eintaka smíði á ári myndi veld duga. En sölustjórum VW sást yfir eitthvað í áætlunum sínum og nú hafa þeir neyðst til að endurskoða þær.

Er raðsmíðin vart hafin þegar orðið er nauðsynlegt að breyta áætlunum og niðurstaðan er að afköstin verða aukin í 200.000 T-Roc bíla á ári.

mbl.is