Innkalla 2,5 milljónir bíla

Innköllunin stóra í Kína er túlkuð sem áfall fyrir General …
Innköllunin stóra í Kína er túlkuð sem áfall fyrir General Motors. AFP

Bandaríski bílrisinn General Motors (GM) hefur ákveðið að innkalla rúmlega 2,5 milljónir bíla á Kínamarkaði vegna meints galla í líknarbelgjum frá japanska framleiðandandum Takata.

GM og kínverska samstarfsfélagið Shanghai GM munu hefjast handa við að skipta um líknarbelgina í byrjun október eigendum bílanna að kostnaðarlausu. Nær innköllunin meðal annars til bíltegundanna Chevrolet og Buick, að sögn kínverskra neytendayfirvalda.

Á undanförnum misserum hefur Takata innkallað um 100 milljónir líknarbelgja sem framleiddir voru fyrir marga af helstu bílaframleiðendum heims, þar af 70 milljónir í Bandaríkjunum.

Belgirnir hafa verið innkallaðir vegna hættu á að þeir gætu blásið út öðruvísi en ætlað var og rifnað, með þeim afleiðingum að lífshættulegar málmflísar þeytist í þá sem í bílnum væru.

Sextán dauðsföll hafa verið rakin til líknarbelgjanna gölluðu og enn meiri fjöldi hefur slasast af völdum þeirra.

mbl.is