Á tveimur sekúndum í hundraðið

Japanskur bílsmiður að nafni Aspark teflir fram óvenjulegum rafdrifnum ofurbíl á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Frankfurt í Þýskalandi.

Bíllinn ber nafnið Owl, eða ugla, og lofa framleiðendurnir því að hann komist í hundraðið úr kyrrstöðu á tveimur sekúndum.
 
Owl sýningarbíllinn er sagður í endanlegri gerð og tilbúinn til fjöldasmíði. Hann er léttur á veginum þrátt fyrir þungan rafgeymi. Sagður vega um 850 kíló og þar af vegi yfirbyggingin aðeins 50 kíló.

Opinberlega segja framleiðendurnir að hér sé um að ræða um algjöran sprettbíl. Hann kemst 150 km á fullri rafhleðslu og því hentugri til styttri ferðalaga fremur en lengri. Uppgefin hámarkshraði er 280 km en á þeirri ferð dregur uglan væntanlega minna.

Séu uppgefnar afkastatölur bílsins sannar ætti hann léttilega að bæta hröðunarmet sem þótt hefur með ólíkindum og líklegt til að standa lengi. Þar var að verki Dodge Challenger SRT Demon af 2018 árgerðinni sem þurfti aðeins 2,3 sekúndur til að komast úr kyrrstöðu á 60 mílna - 97 km - ferð. Fróðlegt verður að sjá hvernig uglan tekur á því meti.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá prófanir á grind bílsins japanska:

mbl.is