Glitur fær vottun frá Mercedes-Benz

Dirk Zentgraf, Guðjón Ágúst Sigurðsson, Albert Kristjánsson og Óskar Páll …
Dirk Zentgraf, Guðjón Ágúst Sigurðsson, Albert Kristjánsson og Óskar Páll Þorgilsson fögnuðu því að Glitur sé komið vottun sem viðurkennt málningar- og réttingarverkstæði fyrir Mercedes-Benz bíla.

Bílaumboðið Askja hefur gert samning við Glitur bílamálun og réttingar á Suðurlandsbraut. Glitur hefur nú fengið vottun sem viðurkennt málningar- og réttingarverkstæði fyrir Mercedes-Benz bíla.

„Glitur hefur starfað náið með Öskju allt frá árinu 2005 og hefur sinnt viðgerðum á Mercedes-Benz bifreiðum. Samhliða góðu gengi í sölu og miklum tækninýjungum hefur eftirspurnin eftir viðurkenndu verkstæði aukist.

Glitur hefur lengi sóst eftir því að verða fyrsta viðurkennda málningar- og réttingaverkstæði fyrir Mercedes-Benz á Íslandi, og hefur undanfarin ár fjárfest í tæknibúnaði, sérverkfærum og þjálfun samkvæmt kröfum framleiðandans. Sem hluti af þessu ferli þurftu starfsmenn Gliturs að sækja fjölda námskeiða í Þýskalandi og standast úttektir á vinnubrögðum, tækjabúnaði og framkvæmd viðgerða.

Í lokaúttektinni sem fór fram í september kom í ljós að vinna undanfarinna ára hafði skilað sér í framúrskarandi gæðum,“ segir Óskar Páll Þorgilsson, forstöðumaður þjónustusviðs Öskju af þessu tilefni.

Dirk Zentgraf, sérfræðingur Mercedes-Benz, sem framkvæmdi lokaúttektina hafði á orði að verkstæði Gliturs stæðist fyllilega kröfur sem framleiðandi gerir varðandi tjónaviðgerðir og væri sambærilegt að gæðum við það sem best gerist í Þýskalandi. Óskar Páll segir að í dag sé Glitur eina verkstæði landsins sem er tæknilega fært um að sinna tjónaviðgerðum á Mercedes-Benz bifreiðum á fullnægjandi hátt til að viðhalda fullum gæðum og öryggi farþega.

mbl.is