Toyota kynnir lúxusvetnisbíl

Toyota Fine-Comfort Ride hugmyndabíllinn er heldur óvenjulegur í laginu.
Toyota Fine-Comfort Ride hugmyndabíllinn er heldur óvenjulegur í laginu.

Toyota hefur birt mynd af nýjum hugmyndabíl sem fyrirtækið mætir með til leiks á bílasýningunni árlegu í Tókýó sem hefst í næstu viku.

Fine-Comfort Ride heitir gripurinn og er vetnisknúinn lúxusbíll. Hann er sagður einkar rúmgóður og til marks um hvaða stefnu Toyota ætli að taka í framleiðslu lúxusbíla. Hann er nokkuð óvenjulegur í laginu og nær íveruklefinn nánast stafna á milli, þökk sé vetnisvélinni. 

Toyota Fine-Comfort Ride er 4,83 metra langur sem er um það bil sama lengd og Lexus GS. Hann er hins vegar mun breiðari, eða 1,95 metrar og þar með breiðari en Mercedes S-Class. Og hjólahafið er óvenjulega mikið eða 3,45 metrar, sem er um það bil 30 sentímetrum lengra en á lengsta hjóla S-Class bílanna.  Rafmótor er við hvert hjól. 

Í bílnum verða sæti fyrir sex manns og í miðröðinni verða tvö stök sæti sem snúa má til hvorrar hliðar og láta falla niður. Í þriðju og öftustu röðinni verður bekkur.

Vetnisvélin er sögð bjóða upp á þúsund kílómetra akstur áður en þörf sé að bæta á tanka Fine-Comfort Ride bílsins.  Mun aðeins taka nokkrar mínútur að fylla tankana.

Hermt er að með bílnum vilji Toyota fyrst og fremst sýna þá möguleika í nýrri hönnun og nýrri útfærslu fólksbíla sem vetnisvél býður upp á.  Það sé megin ástæðan fyrir því að japanski bílsmiðurinn mæti með hann á Tókýó-sýninguna.

mbl.is