Hyundai Ioniq „konubíll ársins“

Bílaþrennan Hyundai Ioniq var nýlega kjörinn „Konubíll ársins“ af tímaritinu Women’s World Car sem veita árlega aðalverðlaun sín „Supreme Award“. Ioniq er boðinn í þremur útfærslum hvað varðar orkugjafa; í hreinni rafmagnsútfærslu, sem tengitvinnbíll og tvinnbíll og veitti dómnefndin Ioniq verðlaunin óháð orkugjafanum.

Að lokinni stigagjöf stóð Ioniq, óháð orkugjafa, uppi sem grænasti bíllinn á markaðnum og var hann síðan valinn handhafi aðalverðlaunanna í ár.

„Dómnefnd Women’s World Car tók afstöðu til sex mismunandi þátta á leið sinni til endanlegrar niðurstöðu, svo sem þess hver væri besti fjölskyldubíllinn, á hagstæðasta verðinu, umhverfismildastur, með bestu sporteiginleikana, lúxusinn og mestu aksturseiginleikana. Að samanlögðum stigum sem veitt voru í hverjum flokki stóð Ioniq uppi sem sigurvegari með mestan heildarfjölda stiga og því handhafi aðalverðlaunanna,“ segir í tilkynningu.

Nýta orkuna vel

Ioniq Hybrid og Ioniq Plug-in eru meðal orkunýtnustu bílanna á markaðnum í dag og með hvað minnstu losun á CO2 samkvæmt NEDC Test Cycle. Þannig kemst t.d. rafmagnsbíllinn Ioniq um 280 km á hleðslu rafhlöðunnar og hentar hann mjög stórum hópi ökumanna sem vilja aka bíl sem kemst talsvert langt á hleðslunni án CO2-mengunar. Þeir sem velja tengitvinnbílinn Ioniq komast um 60 km á rafhlöðunni einni saman áður en bensínvélin tekur við á lengra ferðalagi. Það þýðir að fyrir fjölmarga dugar rafhlaðan til daglegra ferðalaga til og frá vinnu án þess að geta bílsins til ferðalaga út úr bænum sé skert.

Strangt ferli prófana

Dómnefnd við árlegt val á alþjóðaverðlaunum Women’s World Car of the Year er að sjálfsöðgu eingöngu skipuð konum. Í nefndinni eiga sæti 25 bílablaðamenn frá tuttugu löndum sem eiga það sameinlegt að hafa starfað lengi í greininni. Í aðdraganda verðlaunanna eru rúmlega 400 bíltegundir og gerðir í pottinum. Þeim er síðan fækkað í 60 bíla í næstu umferð áður en leynileg atkvæðagreiðsla meðlima dómnefndarinnar tekur við í úrslitagjöfinni. Það er svo skrifstofa endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton’s á Nýja Sjálandi sem tekur við atkvæðaseðlunum og birtir niðurstöðuna. „Sá bíll sem sigrar samkeppnina hefur farið í gegnum strangt ferli lýðræðislegra prófana 25 kvenna í dómnefnd okkar og til að sigra samkeppnina verður bíllinn sem vinnur að bera af öðrum,“ segir Sandy Myhre, framkvæmdastjóri Women’s World Car of the Year.

mbl.is