Tíundi hver vörubíll í ólagi

Lítil eða engin hætta stafar af þessum nýju og hálfsjálfvirku …
Lítil eða engin hætta stafar af þessum nýju og hálfsjálfvirku flutningabílum.

Óheyrilegur fjöldi vörubíla er í umferðinni í Bretlandi þrátt fyrir alvarlegar bilanir í búnaði þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni DVSA sem fjallar um öryggi ökumanna og bíla er fjöldi vörubíla notaður í umferðinni þrátt fyrir ágallana.

Við vettvangsskoðun á rúmlega 6.000 vörubílum á vegum úti reyndust 11% breskra með vélrænum annmörkum. Hlutfallið var 12,5% hjá erlendum vöruflutningabílum í breskri umferð.

Algengasti ágallinn var í bremsukerfum bílanna en bilaðar bremsur þykja grafalvarlegur hlutur þegar um er að ræða bíla sem oft eru yfir 40 tonn að þyngd með farmi sínum. Af vélrænum bilunum voru ágallar í bremsukerfum í 28% bresku bílanna og 33% í hinum erlendu.

Einnig fundust bilanir í öxli, hjólabúnaði, dekkjum, fjöðrunarkerfum, stýrisgangi og undirvagni. Ekki var um minniháttar ágalla að ræða, heldur vandamál og bilanir sem leiddu réttilega til þess að bílarnir voru teknir úr umferð eða fyrirskipað að fá bílana lagfærða á næsta bílaverkstæði.

Formaður félags breskra bíleigenda segir það ávísun á harmleik að aka 44 tonna trukki með bilaðar bremsur og galla í stýrisbúnaði á vegunum.

mbl.is