VW-stjóri í sjö ára fangelsi

Volkswagenstjórinn var dæmdur í sjö ára fangelsi.
Volkswagenstjórinn var dæmdur í sjö ára fangelsi. AFP

Oliver Schmidt, framkvæmdastjóri hjá Volkwagen (VW)  í Bandaríkjunum, var í morgun dæmdur í sjö ára fangelsi  og sektaður um 400.000 dollara fyrir aðild sína að dísilhneykslinu sem við VW er kennt.

Hneykslið varðar um 600.000 bíla frá VW-samsteypunni sem búnir voru búnaði til að blekkja mengunarmælingar með því að sýna á prófum mun minni losun gróðurhúsalofts en raunverulega átti sér stað.

Var Schmidt dæmdur fyrir brot á lögum um loftlagsmengun og sagði dómari í Detroit í Michigan að hann hafi verið höfuðpaurinn í blekkingartilraununum, en fyrir til viljun komst málið upp.
    
Oliver Schmidt er Þjóðverji og var framkvæmdastjóri umhverfis- og verkfræðiskrifstofu Volkswagen í Michiganríki á árunum 2012 til 2015. Hann var ákærður fyrir samtals 11 brot á hegningarlögum og stóð frammi fyrir allt að 169 ára fangelsisdómi hefðu ákærurnar allar verið teknar til greina af dómstólnum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hann komst hins vegar að samkomulagi við saksóknara sem féllu frá flestum liðum ákærunnar gegn játningu fyrir brotin sem eftir stóðu. Að lokinni afplánun verður hann rekinn úr landi.

Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa stefnt átta af núverandi og fyrrverandi yfirmönnum  Volkswagen en sex þeirra hafa hingað til ekki gefið sig fram.

mbl.is