Nýtt sektarákvæði fyrir hjólreiðafólk

Hjólreiðafólk getur átt von á sektum fyrir að hjóla gegn …
Hjólreiðafólk getur átt von á sektum fyrir að hjóla gegn rauðu ljósi í sumar. Þá hækka einnig aðrar sektir með nýrri reglugerð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjólreiðafólk sem hjólar gegn rauðu umferðarljósi getur eftir 1. maí átt von á því að fá allt að 20 þúsund krónu sekt fyrir athæfið. Þetta má meðal annars finna í nýrri reglugerð um sektir og önnur viðurlög fyrir umferðarlagabrot sem kynnt var í mánuðinum.

Breytingar verða gerðar á fjölda flokka sem tengjast umferðarlagabrotum á bifreiðum og bifhjólum, en nokkrar eiga einnig við um reiðhjól.

Nýtt í reglugerðinni er sem fyrr segir að hægt er að sekta fyrir að hjóla gegn rauðu umferðarljósi. Ekki er tekið sérstaklega fram hvort það eigi bara við um umferðarljós fyrir akandi umferð eða einnig gönguljós, en miðað við orðalagið er líklega heimilt að sekta fyrir að hjóla gegn báðum tegundum.

Þá eru sektir fyrir brot á sérreglum fyrir reiðhjól hækkaðar úr fimm þúsund krónum upp í 20 þúsund krónur fyrir hvert brot. Í sérreglum er meðal annars kveðið á um að hjólreiðafólk skuli aka í einfaldri röð en ekki samhliða, nema það sé unnt án hættu. Þá eigi hjólreiðafólk að hjóla hægra megin á akrein, ekki valda gangandi hættu, megi ekki hanga aftan í öðru ökutæki og er skylt að læsa reiðhjóli sínu. Hægt er að lesa nánar um sérreglur í grein 39-41 í umferðarlögum.

Í nýju reglugerðinni er heimild til að sekta hjólreiðafólk sem er með á hjóli sínu hemlabúnað eða ljós og glitmerki sem er áfátt. Getur sektin numið 20 þúsund krónum. Þá er einnig opið að sekta fyrir „annað“ sem ekki er í lagi á hjólum. Er sekt fyrir það einnig 20 þúsund krónur. Að lokum er heimild til að sekta hjólreiðafólk sem hefur hliðarvagn tengdan vinstra megin við reiðhjól og er sektin aftur 20 þúsund krónur.

Reglugerð um sektir og önnur viðurlög fyrir umferðarlagabrot í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina