Gleymirðu barninu varar bíllinn þig við

Viðvörunarbúnaðurinn í Hyundai Santa Fe er sagður geta hæglega bjargað …
Viðvörunarbúnaðurinn í Hyundai Santa Fe er sagður geta hæglega bjargað mannslífum.

Nýsköpun og frumkvæði Hyundai Motor í þróun öryggisbúnaðar og -kerfa hefur vakið eftirtekt, nú síðast Evrópusamtakanna Autobest  sem veitt hafa Hyundai verðlaunin „Safety Best“ fyrir þróun farþegaviðvörunar fyrir  aftursætisfarþega.

Viðvörunin er sú fyrsta sinnar tegundar í bílaiðnaði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hyundai. Þar kemur og fram að dómnefnd Autobest segi hana framúrskarandi tækni sem auðveldlega geti bjargað lífi barna og dýra.

Hyundai innleiddi tæknina fyrr á þessu ári þegar ný kynslóð Santa Fe kom á markað. Aðvörunin virkar þannig að þegar ökumaður er ásamt fleirum í bílnum og yfirgefur hann eftir að hafa dregið á vélinni minni kerfið hann á með merki í mælaborðinu að aftur í séu farþegar.
 
Þegar ökumaðurinn hefur yfirgefið bílinn og læst án þess að opna afturdyrnar virkjast öryggisbúnaðurinn og skynjar að enn séu farþegar í bílnum. Þá flautar bíllinn á ökumanninn og blikkar framljósunum.  Viðvörunarkerfið virkjast líka þegar börn læsa sig óvart inni í bílnum. Hægt er að hlaða appi fyrir tæknina í snjallsíma.

Getur bjargað lífum

Dómnefnd Autobest segir að viðvörunin geti mjög hæglega bjargað lífum, ekki síst þegar kornabörn eða heimilisdýr eru skilin eftir í bílnum í miklum hita. Þess eru dæmi að slíkt hafi valdið dauða barna og dýra. „Þessi frábæra tækni sem Hyundai hefur þróað til að koma í veg fyrir að foreldrar skilji börnin sín eftir í bílnum er svo óskaplega einföld en um leið alveg bráðnauðsynleg. Með þróun tækninnar hefur Hyundai lagt mikið að mörkum til að koma í veg fyrir hörmuleg slys,“ segir Dan Vardie, stofnandi og formaður Autobest íi téðri tilkynningu.

Alls veitir Autobest viðurkenningar í átta flokkum og varð Hyundai hlutskarpast í einum þeirra. Í dómnefnd verðlaunanna sátu fulltrúar frá 31 landi í Evrópu.  Verðlaunin verða afhent við hátíðarathöfn í Brussel 7. febrúar nk.

Myndskeiðin hér á eftir sýna dæmi um tvenns konar öryggisvirkni Hyundai til verndar aftursætisfarþegum sem hægt er að fá með nýjum Santa Fe. Hið fyrra sýnir kerfið koma í veg fyrir að aftursætisfarþegi geti opnað dyrnar fyrr en aðvífandi bíll fyrir aftan hefur farið framhjá. Hin viðvörunin sýnir virkni búnaðarins, sem Autobest verðlaunaði Hyundai fyrir, þegar ökumaður gleymir að hleypa aftursætisfarþega út eftir að hafa yfirgefið bílinn og læst.

mbl.is