Myndu glaðir borga holuskatt

Malbiksholur eru öllum til ama.
Malbiksholur eru öllum til ama.

Fimmti hver breskur bíleigandi myndi glaður borga sérstakan holuskatt ef það mætti verða til að leysa „holukreppuna“ eins og holumyndun á breskum vegum er kölluð.

Þetta er niðurstaða könnunar á vegum Motorpoint, helstu óháðu bílasölu landsins. Hún vísar til könnunar Green Flag, sem veitir biluðum bílum á götum úti hjálpar- og viðgerðarþjónustu.

Í henni segir, að árlega borgi bíleigendur rúma fjóra  milljarða punda í viðgerðir vegna tjóns sem rakið er til holanna.

Áætlað hefur verið að það myndi kosta 9,8 milljarða punda að uppræta malbiksholur á breskum vegum. Verkið tæki um áratug.

Alls eru 32,9 milljónir manna með gilt ökuskírteini í Bretlandi. Miðað við það þyrfti hver skírteinishafi að borga 239 pund í holuskatt sem rukkaður yrði aðeins einu sinni.

Holuvandinn hefur verið viðvarandi og samgöngunefnd breska þingsins lýsti honum á dögunum sem þjóðarhneyksli. Árlega tilkynnir almenningur um 500.000 vegholur, að sögn konunglega bíleigendafélagsins (RAC).

mbl.is

Bloggað um fréttina