„Hraðskreiðasta konan“ látin

Jessi Combs í ágúst árið 2012.
Jessi Combs í ágúst árið 2012. AFP

Jessi Combs, sem var álitin „hraðskreiðasta konan á fjórum hjólum”, lést í bílslysi á þriðjudaginn þegar hún reyndi að bæta sitt eigið met.

Slysið varð í Alvord-eyðimörkinni og var Combs úrskurðuð látin á staðnum.

Combs, sem var 39 ára, hlaut titilinn „hraðskreiðasta konan” árið 2013 þegar hún ók bíl sínum á 641 km hraða á klukkustund og að sögn lögreglunnar lést hún er hún reyndi að bæta árangurinn.  

Rannsókn stendur yfir á tildrögum slyssins.

Combs, sem einnig kom fram í hinum ýmsum sjónvarpsþáttum í Bandaríkjunum, hafði áður reynt að bæta metið í október í fyrra. Þá tókst henni að fara hraðar en nokkru sinni fyrr en vegna tæknivandræða var metið ekki gilt.

Hún hafði sett sér það markmið að slá met hinnar bandarísku Kitty O´Neil frá árinu 1976, sem var titluð „hraðskreiðasta konan í heiminum”, en það met var einnig sett í Alvord-eyðimörkinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina