Þótti rétt að geyma nýjustu bílana

Upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar segir líklegt að umræddir bílar fari í notkun …
Upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar segir líklegt að umræddir bílar fari í notkun á umhverfis- og skipulagssviði. Ljósmynd/Aðsend

Alls fimm bílar í eigu Reykjavíkurborgar hafa staðið óhreyfðir í bílastæðum sem borgin hefur afnotarétt af í Bryggjuhverfi í nokkra mánuði, samkvæmt orðsendingu sem Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri borgarinnar, sendir mbl.is vegna fréttar sem birtist fyrr í dag.

Þar var fjallað var um tvo rykfallna bíla sem Hilmar Ólafsson, íbúi í Bryggjuhverfinu, hafði veitt athygli í bílakjallara fjölbýlishúss sem hann býr í.

Samkvæmt því sem Bjarni segir hafa bílarnir verið þarna í „nokkra mánuði“, en þrír þeirra eru þegar komnir í notkun hjá borginni. Þá kemur fram að fjórir bílanna gangi fyrir metani, en einn fyrir dísilolíu. Um er að ræða bíla sem höfðu verið notaðir í heimaþjónustu borgarinnar.

Líklegt að umhverfis- og skipulagssvið noti bílana

„Borgin á nokkurn fjölda bíla sem hún leigir sviðum borgarinnar. Þegar notkun sviðanna á bílunum dróst saman voru nokkrir þeirra seldir í gegnum bílasölur – en metið sem svo að geyma nýjustu bílana um stund til að nota innan kerfis. Líklegt er að umræddir bílar fari í notkun á umhverfis- og skipulagssviði,“ segir upplýsingastjóri borgarinnar, sem segir að ekki hafi verið þótt rétt að selja bílana þar sem ljóst þótti að ekki fengist fyrir þá ásættanlegt verð.

mbl.is

Bloggað um fréttina