Toyota Yaris bíll ársins í Evrópu

Toyota Yaris er vinsæll bíll á Íslandi.
Toyota Yaris er vinsæll bíll á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Toyota Yaris hefur verið valinn bíll ársins 2021 í Evrópu. Bíllinn var valinn af dómnefnd 59 blaðamanna á sviði farartækja í Evrópu, en um er að ræða fjórðu kynslóð af tegundinni Yaris, en fyrsta kynslóðin sem kom út árið 2000 fékk einmitt sömu verðlaun þá. Toyota hafði þá ekki fengið slíka viðurkenningu áður. 

Dómnefndin lofaði sérstaklega hybrid-tækni Yarissins auk þess sem vakin var sérstök athygli á litlu kolefnisspori bifreiðarinnar og viðráðanlegu verði. Í tilkynningu segir að umsögn dómnefndarinnar skýri vel hvers vegna 80% þeirra sem kaupa Yaris velji hybrid-útgáfu bifreiðarinnar. 

Niðurstaða dómnefndarinnar var tilkynnt aðeins fáeinum dögum eftir að Yarisinn var útnefndur mest seldi bílinn í Evrópu í fyrsta sinn. 

„Þetta er mikill heiður fyrir Toyota og ég vil þakka dómnefndinni fyrir viðurkenninguna. Ég vil einnig nýta tækifærið og vekja athygli á ástríðu þróunarteyma okkar í Evrópu og Japan. Þetta er besti Yarisinn frá upphafi, og rétt eins og Akio Toyoda vildi er bíllinn þegar farinn að koma brosi á andlit viðskiptavina okkar,“ sagði Matt Harrison, aðstoðarforstjóri Toyota í Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina