Heimsækja Lamborghini, Ferrari, Ducati og Pagani

Komið er við á helstu bílasöfnunum á svæðinu. Lamborghini-safnið var …
Komið er við á helstu bílasöfnunum á svæðinu. Lamborghini-safnið var tekið í gegn fyrir nokkrum árum og laðar til sín fjölda gesta. Ljósmynd / Lamborgini - Guizzardi Umberto

Um allan heim má finna merkilega áfangastaði sem ættu að höfða til bílaunnenda og margir sem leggja á sig löng ferðalög til að heimsækja frægar kappakstursbrautir og áhugaverð bílasöfn. En ef velja ætti einn stað sem ber af, og verðskuldar alvöru pílagrímsför, þá er það Mótordalurinn svokallaði á Ítalíu.

Það er í Mótordalnum sem hjarta ítalska sportbíla- og mótorhjólageirans slær og þar eru heimkynni framleiðenda á borð við Ferrari, Lamborghini, Maserati, Ducati og Pagani auk heimsfrægra keppnisbrauta á borð við Imola og Fiorano.

Fjallakofinn – Ævintýraferðir býður upp á ferð til Mótordalsins í október og verður Brandur Jón H. Guðjónsson fararstjóri. Þetta er í annað skiptið sem ferðaskrifstofan skipuleggur ferð á þessar slóðir en fyrsta ferðin var árið 2019 og heppnaðist einkar vel.

„Þetta er ferð sem svalar bílaáhuga fólks mjög vel en rúsínan í pylsuendanum er að eiga þess kost að fá að setjast við stýrið á ítölskum sportbíl og ýmist aka á sveitavegum eða á keppnisbraut,“ segir Brandur.

Afsprengi ítalsks metnaðar og metings

Brandur hefur starfað sem leiðsögumaður um langt skeið og verið reglulegur gestur á Ítalíu frá árinu 2005 þar sem hann hefur einkum tekið á móti hópum göngu- og reiðhjólafólks. Ferðaskrifstofan varð vör við áhuga á Mótordalnum og lét verða af því að búa til áhugaverðan pakka fyrir fólk með bíla- og mótorhjólabakteríu. Brandur segir margt að sjá og gera á þessum slóðum því undir Mótordalinn falla merkilegar borgir á borð við Bologna, Modena og Parma auk þess sem stutt er til að fara til Flórens eða Mílanó. Í þessari ferð fá samt bílar og mótorhjól alla áhersluna.

Mótordalurinn er landbúnaðarsvæði og er sú kenning vinsæl að sportbílaiðnaðurinn þar hafi orðið til í kringum metnað og meting bænda sem lærðu að vinna með vélar og ökutæki og skemmtu sér við að spana hratt eftir beinum sveitavegunum. „Fræg er sagan af því þegar dráttarvélaframleiðandinn Ferruccio Lamborghini heimsótti Enzo Ferrari í sportbílaverksmiðju þess síðarnefnda. Lamborghini hafi þá í tvígang keypt bíla frá Ferrari en tók eftir að kúplingin í þeim var ekki nógu góð. Í heimsókninni sagðist hann vera með tillögu að lausn til að bæta bílana en Ferrari brást hinn versti við og svaraði eitthvað á þá leið að Lamborghini ætti ekki að skipta sér af heldur halda sig við dráttarvélarnar,“ segir Brandur. „Lamborghini sármóðgaðist við þessar viðtökur og þegar hann sneri aftur til fyrirtækis síns var það fyrsta sem hann sagði við starfsfólk sitt að nú skyldi Lamborghini líka framleiða sportbíla.“

Gæfan virðist hafa hagað því þannig að á svæðinu urðu til klasaáhrif sem löðuðu að færustu sérfræðinga Ítalíu og tryggðu að góðar hugmyndir flæddu á milli framleiðenda sem á sama tíma áttu í harðri samkeppni innbyrðis. Varð þannig á endanum til stór hópur fyrirtækja sem núna eru leiðandi á heimsvísu og í hópi þekktustu vörumerkja.

Lukkulegur íslenskur bílaáhugamaður á bak við stýrið á ítölskum ofursportbíl …
Lukkulegur íslenskur bílaáhugamaður á bak við stýrið á ítölskum ofursportbíl í fyrstu ferðinni í Mótordalinn. Brandur Jón árið 2019. Að aka bílum frá Ferrari og Lamborghini er meiriháttar upplifun enda bifreiðar í algjörum sérflokki. Ljósmynd / Fjallakofinn

Umkringd draumabílum og merkilegum mótorhjólum

Ferðin varir frá 24. til 29. október og hefst á flugi til Bologna með millilendingu í Kaupmannahöfn. „Við gistum allar næturnar á góðu hóteli í miðborg Modena en strax eftir fyrstu nóttina höldum við til Lamborghini og heimsækjum safnið þeirra þar sem komast má í návígi við marga draumabíla. Vegna breytinga á verksmiðjunni er óvíst hvort við fáum að skoða framleiðslugólfið en safnið eitt og sér er heimsóknarinnar virði. Eftir hádegi liggur leiðin til Ducati þar sem hópurinn er leiddur um verksmiðju mótorhjólaframleiðandans og safnið þeirra skoðað sömuleiðis,“ útskýrir Brandur en inn á milli dagskrárliða snæðir hópurinn dýrindis mat enda enginn hörgull á framúrskarandi veitingastöðum á svæðinu. Gestir hafa frjálsan tíma á kvöldin, ef þeir vilja, en einnig geta þeir haldið hópinn og snætt kvöldverð saman.

Þriðji dagur ferðarinnar hefst með heimsókn til Pagani og er það breyting frá ferðinni 2019. „Við höldum svo sem leið liggur í Panini-bílasafnið sem þykir búa að einstökum safnkosti,“ segir Brandur.

„Fjórði dagurinn er helgaður Ferrari og förum við á tveimur jafnfljótum í Enso-safnið sem fer ítarlega yfir sögu fyrirtækisins og er byggt utan um gömlu verksmiðjuna og skrifstofuna þar sem Ferrari var til húsa. Seinni part dags förum við til Maranello og fáum þar bæði rútuferð um verksmiðjusvæði Ferrari og um safnið þeirra.“

Fimmta daginn, og þar með í lok dagskrárinnar, eiga gestir þess kost að fá að aka ítölskum sportbíl undir leiðsögn aðstoðarmanns og eru í boði pakkar sem eru allt frá tíu mínútum og upp í tvær klukkustundir.

Ævintýri undir stýri

Brandur mælir eindregið með því að fólk láti það eftir sér að upplifa sportbílana en stystu pakkarnir kosta um 110 evrur og þeir lengstu 1.950 evrur. Er í boði, gegn aukagjaldi, að fá ljósmynd eða myndbandsupptöku af akstrinum og sem fyrr segir er bæði hægt að aka á keppnisbraut og á fallegum sveitavegum. „Ég mæli með því að byrja á stuttum pakka á einum af kraftminni bílunum til að læra á hvernig þessir bílar og reynsluaksturinn virka, og bæta svo við lengri ferð á kraftmeiri bíl og fá þannig sem mest út úr akstrinum. Leiðsögumennirnir vita sínu viti, þekkja vegina út og inn og vita hvernig best má leyfa fólki að upplifa allt það sem þessi ökutæki hafa upp á að bjóða.“

Eftir fimmtu og síðustu nóttina í Modena er hópurinn ferjaður til Mílanó og flýgur þaðan beint til Íslands með Icelandair en þeir sem vilja geta lengt dvölina og t.d. skoðað sig um á söfnunum í Flórens eða þrætt tískuverslanirnar í Mílanó. „Það er ekki hægt að breyta dagsetningu flugsins út til Ítalíu en það má breyta fluginu til baka og fylgir því ekki mikill aukakostnaður,“ segir Brandur.

Nánari upplýsingar má finna á slóðinni ferdir.fjallakofinn.is.

Brandur Jón H. Guðjónsson er leiðsögumaður í ferðinni.
Brandur Jón H. Guðjónsson er leiðsögumaður í ferðinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina