Tímareim knýr kambásinn frá sveifarásnum í vélinni. „Þú átt ekki að þurfa að endurnýja tímakeðjuna. Heddið þarf að plana og setja á með nýrri pakkningu og nýjum heddboltum,“ segir í bílapistli vikunnar.
Tímareim knýr kambásinn frá sveifarásnum í vélinni. „Þú átt ekki að þurfa að endurnýja tímakeðjuna. Heddið þarf að plana og setja á með nýrri pakkningu og nýjum heddboltum,“ segir í bílapistli vikunnar. — Morgunblaðið/Frikki
Benz C180 – undirlyftutikk Spurt: Ég er með Benz C180 , árg. '95 (289 þús. km). Heddpakkningin er farin og ventlatikk hefur heyrst nokkuð lengi. Væri ráð að endurnýja undirlyftur og jafnvel tímakeðjuna um leið og heddpakkninguna?

Benz C180 – undirlyftutikk

Spurt: Ég er með Benz C180 , árg. '95 (289 þús. km). Heddpakkningin er farin og ventlatikk hefur heyrst nokkuð lengi. Væri ráð að endurnýja undirlyftur og jafnvel tímakeðjuna um leið og heddpakkninguna?

Ég var að endurnýja vökva og síu í skiptingunni; tappaði af pönnu og þreif vel auk þess sem ég tæmdi vökvadrifið (konverterinn). Mér taldist koma af þessu um sjö lítrar. Þegar ég fór að fylla á skiptinguna byrjaði ég með með 5 lítra. Þegar ég var byrjaður á 6. lítranum tók ég eftir leka undan bílnum út um op fyrir ofan pönnu. Með um 5 lítra á skiptingunni er borðið um 3 sm ofan við efsta merki á kvarða þegar vél/skipting er heit. Þarf ég að tappa af skiptingunni?

Svar: Þú átt ekki að þurfa að endurnýja tímakeðjuna. Heddið þarf að plana og setja á með nýrri pakkningu og nýjum heddboltum (teygjuboltar). Þú færð þessa varahluti á hagstæðu verði hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli á Tangarhöfða í Reykjavík. Ég efast um að þú þurfir að skipta um vökvadempara á milli kambáss og vippu – tikkið stafar oftast af þrýstingsfalli vegna lekrar heddpakkningar.

Varandi sjálfskiptinguna: Yfirfall er á þessum skiptingum sem kemur í veg fyrir að vökvaborðið verði of hátt. Um 7-8 lítra þarf við síuskipti en alls munu fara um 9 lítrar á tóma skiptingu og vökvadrif (konverter) eftir endurbyggingu. Sjálfskiptinguna á að fylla á í áföngum: Með stöðubremsuna á fyllirðu fyrst með 4-5 lítrum, gangsetur og færir á milli allra gíra nokkrum sinnum og ekur áfram og afturábak. Síðan endurtekurðu ferlið, bætir 1 lítra við og ekur lengra. Þá á vökvastaðan að mælast rétt með heita skiptingu/vél, vél í lausagangi, bílinn láréttan og skiptinguna í P. Benz-skipting er næm fyrir vökvamagni. Yfirfylling getur eyðilagt hana.

„Teygju-heddboltar“ – hvers vegna?

Spurt: Þegar endurnýja þarf heddpakkningu er oft talað um að endurnýja þurfi heddbolta um leið og jafnvel fleira. Hver er skýringin á því?

Svar: Til að létta bíla eru notaðar álblöndur í ýmsa stærri hluti svo sem hedd og vélarblokkir. Ál er mun fljótara að hitna en stál og því þarf gangsetning ekki eins sterka blöndu né eins lengi (minna innsog) sem sparar eldsneyti og minnkar mengun í útblæstri. Þessum eiginleika áls fylgir að útþensla þess við hitun og samþjöppun við kólnun er meiri en stáls. Til að halda heddpakkningu þéttri þurfa heddboltar því að geta teygst og dregist saman, þ.e. fylgt þenslu hedds. Til þess þarf að að forspenna þá við herslu með sérstakri aðgerð (endurlosun, endurhersla + gráður). Þar sem bilun í heddpakkningu veldur oft yfirhitnun vélar lengjast boltarnir umfram teygjuþol og tapa teygjanleikanum. Við ofhitnun verpist heddið. Oft má mæla ástand boltana með skíðmáli því við teygjun umfram mörk myndast á þeim mælanlegt „mitti“. Til þess að hedd „pakki“ eftir ofhitnun er pakkningarflötur þess réttur af (planaður). Ástæða þess að aðrir hlutir eru oft endurnýjaðir um leið og heddpakkning, svo sem vatnsdæla og tímareim, er að stærsta hluta sama verks þarf oft að vinna við endurnýjun þessarra hluta. Hedd er hert í áföngum og eftir reglum: Byrjað er á miðjunni og heddið „flatt út“ frá henni og endað á fremstu og öftustu boltunum. Séu síðustu áfangar „boltaherslulista“ gefnir upp í gráðum þýðir það að um einnota heddbolta (teygjubolta) er að ræða. Heddboltagöt (gengjur) þarf að þrífa rækilega og sé ekki annað tekið fram á að smyrja gengjur í blokk og á boltum auk snertistalls á boltahaus fyrir samsetningu. Teygjuboltar eru úr sérhertri stálblöndu sem þolir ákveðna teygjun (að tognun- og slitmörkum) án þess að glata herslustyrk. Því er ekki sama hvernig þeir eru hertir. Að fyrstu herslu lokinni er oftast losað upp á hverjum einstökum bolta í einu samkvæmt hersluröð og hann hertur aftur að uppgefnu átaki og síðan forspenntur með herslu í gráðum. (Ástæða þess að ég nefni þessa viðgerð „íslensku heddpakkninguna“ er að hún stafar oftast af trassaskap. Hérlendis var, áratugum saman, trassað að endurnýja kælivökva á 3-4 ára fresti á ábyrgðartíma, eins og tekið er fram í handbókum flestra bíla).

Kælivökvi hefur þróast

Á sumum bílvélum eru núorðið kælivökvi sem á að endast vélina; nýjar álblöndur hafa meira tæringarþol, heddpakkningar hafa verið endurbættar og ný gerð kælivökva súrnar síður með aldri. Upplýsingar um þessi atriði eru undantekningarlaust í handbók sem fylgir viðkomandi bíl. En óhöpp geta alltaf gerst. Því eru til dýrir kælivökvar í viðkomandi umboði auk þrenns konar gæðavottaðra kælivökva frá þekktum framleiðendum; með 2ja ára tæringarþol, 3ja ára tæringarþol og tæringarþol umfram fimm ár.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)