Opel Vectra eru algengir bílar í umferðinni hér á landi. „En svo heyrðist smellur og vélin neitaði að fara í gang og bíllinn var fluttur á verkstæði,“ segir bréfritari sem leitar ráða.
Opel Vectra eru algengir bílar í umferðinni hér á landi. „En svo heyrðist smellur og vélin neitaði að fara í gang og bíllinn var fluttur á verkstæði,“ segir bréfritari sem leitar ráða. — Morgunblaðið/Jim Smart
Gölluð Opel-vél? Spurt: Ég keypti Opel Vectra Direct 2.2 árið 2007 (bensín) hjá umboðinu og hef ekið honum um 50 þús. km. En svo heyrðist smellur og vélin neitaði að fara í gang og bíllinn var fluttur á verkstæði IH.

Gölluð Opel-vél?

Spurt: Ég keypti Opel Vectra Direct 2.2 árið 2007 (bensín) hjá umboðinu og hef ekið honum um 50 þús. km. En svo heyrðist smellur og vélin neitaði að fara í gang og bíllinn var fluttur á verkstæði IH. Nokkrum dögum seinna var mér sagt að bíllinn færi í gang en gangur væri ekki alveg eðlilegur á köflum, skipting óeðlileg, skipti sér ekki upp eðlilega og ekki væri hægt að greina hvað ylli biluninni en skoða ætti málið næsta morgun þegar vélin væri köld. Þá var mér sagt að líklega væri bilunin í „regulator“ eða bensíndælu. Hvort tveggja er dýrt stykki sem ekki var til. Ég gat notað bílinn skamma stund, greinilega í ólagi, eða þar til vélin stöðvaðist aftur með smelli. Hjá IH var mér sagt að áðurnefnd stykki yrðu ekki pöntuð nema ég greiddi staðfestingargjald. Ég átti að taka áhættuna af bilanagreiningu sem ekki var víst að stæðist! Kostnað áætluðu þeir um 300 þús. Mér finnst þetta skrýtin þjónusta og leita því til þín.

Svar: Þjónusta bílaumboða er misjöfn. Eitthvað er þessi lýsing á bilanagreiningu Opel-vélarinnar undarleg, sé hún rétt, því fleira bendir til að smellurinn hafi verið frá tímakeðjunni. Hún er strekkt sjálfvirkt með búnaði sem vinnur með olíu frá smurkerfi vélarinnar. Til að smelli í keðjunni þarf annaðhvort óeðlilega lágan olíuþrýsting eða leka. En það vill svo til að þessi bilun er jafnframt vegna þekkts galla í þessari vél sem er sú sama og í Vauxhall Vectra,

Þar sem þriggja ára ábyrgð er útrunnin en fimm ára kvörtunarfrestur, samkvæmt lögum um neytendakaup, enn í gildi, sé hann einhvers virði, ræð ég þér til að ræða málið við stjórnendur hjá IH. Beri það ekki árangur skaltu fá gert við vélina hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli á Tangarhöfða í Reykjavík. Þeir myndu jafnframt votta ástand vélarinnar og hvað þeir teldu hafa valdið biluninni. Varahluti færðu hjá Kistufelli.

Benz 190: Lausagangsvandræði

Spurt: Ég er með M-Benz 190E 1991 með 1,8-vél, sjálfskiptan, ekinn 265 þús. Einhver bilun veldur því að vélin helst ekki í lausagangi heit en vinnur vel og eðlilega eftir að komið er af stað. Búið er að skipta um flest sem mönnum hefur dottið í hug en án árangurs. Jafnvel vanir Benz-viðgerðarmenn finna ekkert út úr þessu. Þeir benda alltaf á nýja hluti sem þeir vilja skipta um og ég borga, en nú er veskið tómt og ég ráðalaus!

Svar: Byrjaðu á því að skoða allar soglagnir í húddinu. Sumar geta verið grannar pípur úr plasti tengdar á endum með gúmmúffum, ýmist beinum eða bognum, sem vilja leka en þá ruglast kerfið. Á soggreininni, barkamegin við startspíssinn gegnt inngjafarspjaldinu, er ílangt um 6 sm langt stykki sem tengist rafleiðslu. Þetta er loki sem festur er á stall með tveimur litlum boltum. Í stallinum eru tvær pípur sem tengjast smáum götum hvor sínum megin á soggreininni. Stykkið nefnist á ensku „auxillary-air device“ = eða jöfnunarloki. Rafstýrð stálfjöður stýrir þessum loka, sem opnar og lokar þannig að blandan styrkist eða veikist sjálfkrafa við breytt álag, t.d. þegar stansað er og aftur sett í gír. Sé lokinn eða pípurnar stíflaðar drepur vélin á sér í lausagangi eins og þú lýsir.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)