Eigandi Pajero turbodiesel 2,5 lítra 1995 ökutækis leitar ráða hjá Leó M. Jónssyni.
Eigandi Pajero turbodiesel 2,5 lítra 1995 ökutækis leitar ráða hjá Leó M. Jónssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skoda: Biluð þjófnaðarvörn Spurt: Skódinn minn er af árgerð 2002. Hann hefur reynst mér vel. Fyrir nokkrum mánuðum fór að bera á því að vélin vildi ekki í gang heit. Bíða varð þar til hún hafði kólnað.
Skoda: Biluð þjófnaðarvörn

Spurt:

Skódinn minn er af árgerð 2002. Hann hefur reynst mér vel. Fyrir nokkrum mánuðum fór að bera á því að vélin vildi ekki í gang heit. Bíða varð þar til hún hafði kólnað. Á verkstæði var mér sagt að þetta væri vegna ónýts toppstöðunema (crank sensor) en hann kostar mánaðarlaunin mín hjá umboðinu. Við bilunargreiningu á öðru verkstæði kom fram kóðinn P1570. Ekki voru menn á eitt sáttir um hvað hann þýddi þannig að ég beið með frekari aðgerðir. Getur þú sagt mér hvað þessi kóði þýðir og hvað maður ætti að gera?

Svar: Þessi kóði í Skoda þýðir að bilun í þjófnaðarvörn (immobilizer) kemur í veg fyrir að vélartölvan gefi neista á kertin. Þjófnaðarvörninni stýrir flaga (samrás) sem er innbyggð í svisslykilinn. Flagan getur verið biluð, rafhlaðan í lyklinum að tæmast eða sambandsleysi eða bilun á milli svissins og tölvunnar í bílnum sem stýrir þjófnaðarvörninni en það samband fer um sérstakt loftnet tengt svissnum. Fyrir þá sem hafa sérþekkingu á þessum kerfum er þetta ekki stórmál. Þeir hjá Nesradíó í Síðumúla 19 kippa þessu í liðinn fyrir þig.

Pajero: Olíuleki

Spurt: Ég er með Pajero turbodiesel 2,5 lítra 1995. Skyndilega fór að leka olía út með sveifarásstrissunni og um leið var eins og vélin missti afl. Getur verið að pakkdósin bili svona allt í einu og getur verið að olían hafi valdið því að vélin hafi farið yfir á tíma og það sé orsök aflleysisins?

Svar: Af lýsingu þinni að dæma hefur sveifaráspakkdósin gefið sig (skemmst). Tímareimin gæti hafa hoppað um tönn. En þú mátt búast við að fleira sé í gangi og komi í ljós þegar tímareimarhlífin hefur verið losuð af: Á þessum vélum eru 2 reimar, tímareim og fyrir innan hana reim sem knýr jafnvægisás. Sá ás á það til að festast í legunum og þá getur dregið niður í vélinni þar til sú reim slitnar og veldur skemmdum. Því skaltu ekki draga viðgerðina.

Suzuki Jimmy: Framhjólalegur

Spurt: Mig langaði að athuga hvert ég ætti að leita með viðgerð á gömlum Suzuki Jimmy varðandi framhjólalegur og pústviðgerð. Mér skilst að sérverkfæri séu nauðsynleg til að endurnýja framhjólalegurnar í þessum bílum og að þau eigi ekki margir nema þeir sem þjónusta Suzuki-bíla. Eru fleiri sem koma til greina í því sambandi en Semoco ehf?

Svar: Pústviðgerðina færðu á hagstæðasta verði hjá BJB-þjónustunni í Hafnarfirði. Strákarnir þar vita hvort þú getur leitað eitthvað annað með hjólalegurnar en til Semoco. (svo geturðu prófað vefsíðuna www.sukka.is ).

Ford Escape: Eyðsla

Spurt: Hvað getur maður gert til að minnka mikla bensíneyðslu nýlegs Ford Escape jepplings?

Svar: Sumir hafa gripið til þess ráðs að taka afturdrifið úr sambandi (Bílhagi ehf. hefur tekið það að sér). Aðrir eigendur telja sig geta minnkað eyðsluna um 2-3 lítra á hundraðið með því að nota V-Power-bensín.

Ódýr bensínsía getur sparað mánaðarlaun

Margir nýlegir bílar hafa 2 bensíndælur, eina fyrir hringrás en aðra fyrir háþrýsting inn á spíssatré. Stöðug hringrás kælir kerfið, m.a. dælur og aðra fokdýra hluti í innsprautukerfi. Vélin gengur þótt bensínsía sé 50% teppt . Því geta hlutir hitnað óeðlilega og valdið ótímabærum (dýrum) bilunum. Því ætti að endurnýja bensínsíuna árlega. Hún kostar ekki mikið. Verkið fæst unnið á næstu smurstöð.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)