Alternatorinn er ónýtur í Honda Jazz. Góð ráð eru dýr og lesandi leitar ráða hjá Leó M. Jónssyni.
Alternatorinn er ónýtur í Honda Jazz. Góð ráð eru dýr og lesandi leitar ráða hjá Leó M. Jónssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Honda: Ódýrari alternator Spurt: Alternatorinn er ónýtur í Honda Jazz 2005. Hjá umboðinu (Bernharð) var hann ekki til en mér sagt að hann myndi kosta 108 þús. kr. með skipssendingu.

Honda: Ódýrari alternator

Spurt: Alternatorinn er ónýtur í Honda Jazz 2005. Hjá umboðinu (Bernharð) var hann ekki til en mér sagt að hann myndi kosta 108 þús. kr. með skipssendingu. Hefur þú hugmynd um hvar maður getur fengið svona hluti á hagstæðara verði? Framleiðandinn að þessum alternator er Mitsubishi.

Svar: Rafstilling í Dugguvogi 23 í Reykjavík, sem er rafvélaverkstæði rekið af fagmönnum, hefur selt ódýra endurbyggða alternatora og startara í margar gerðir bíla. Þau tæki, sem kosta um þriðjung af því sem umboðin setja upp, hafa reynst vel. Einnig Stilling, Bílaraf og N1 geta átt þessa hluti á mun hagstæðara verði en bílaumboðin.

Chevrolet Captiva: Framhjólalegur

Spurt: Ég á Chevrolet Captiva sem ég keypti nýjan í febrúar 2008. Hef ekið bílnum 51 þús. km. án bilunar þar til nú að önnur framhjólslegan er ónýt. Umboðið áætlar að viðgerðin kosti 90 þús. kr. Þeir á verkstæðinu hjá BB eru sammála mér um að þetta sé óvenju lítil ending en neita samt að taka þátt í kostnaðinum þar sem bíllinn sé nýlega fallinn úr ábyrgð. Hjá N1 kostar legan 59 þús. kr. og jafnvel minna hjá Poulsen. Ég er ekki sáttur við þetta. Hvað finnst þér?

Svar: Framhjólalegur í Captiva hafa gefið sig, jafnvel eftir skemmri akstur en 50 þús. Það á við um fleiri bíla en Chevrolet. Hins vegar hefur umboðið, Bílabúð Benna, framlengt ábyrgðina á framhjólslegunum umfram 3ja ára ábyrgðina. Ráðlegg þér að hafa aftur samband við þjónustu- eða móttökustjóra. Síðan þú hafðir samband við umboðið er tekið öðru vísi á þessu máli enda mun sérstök áhersla lögð á að þjónusta við eigendur Chevrolet-bíla sé til fyrirmyndar.

Renault Megané: „Steindauður“

Spurt: Ég er með Renault Megané '98 sem dó skyndilega í akstri án þess að bilunarljósið hefði kviknað. Hann tekur púst sé startúða sprautað í loftinntakið. Ég hef fundið út að bensíndælan fær ekki straum nema þegar tengt er beint á póla hennar frá geyminum. En þrátt fyrir það fer vélin ekki í gang. Bensínmælirinn virkar. Ég finn ekkert í bókinni um bílinn hvar straumlokur eða öryggi eru fyrir dæluna. Auðvitað ætti maður að fara með bílinn á verkstæði en peningar eru bara ekki fyrir hendi. Þess vegna leita ég til þín. Veistu hvað þetta getur verið?

Svar: Þetta bendir til að straumlokan fyrir bensíndæluna sé biluð (tölvan þarf straumboð frá henni til að neistinn virki). Hún er, ásamt fleiri straumlokum, í svörtum kassa við rafgeyminn. Straumlokan er lítill svartur kubbur með spöðum. Hún hefur fengist hjá Stillingu og N1 og kostaði síðast innan við 2000 kr.

Hvar fæst ...

Spurt: Hvar fæ ég áklæði, t.d. gervileður til að klæða með bílsæti?

Svar: Hjá Bílasmiðnum á Bíldshöfða í Reykjavík. Þar fæst áklæði af ýmsum gerðum ásamt ýmsum sérefnum sem bólstrarar nota til að klæða bílsæti og rútur að innan. Þar færðu einnig raf- og diesel-miðstöðvar í fólks- og fjallabíla.

Ábending

Skekktar felgur geta valið titringi og eyðilagt hjólalegur

Jafnvel dýrar stælfelgur geta verið úr svo mjúkri léttmálmsblöndu að þær þola ekki að rekast utan í kantstein án þess að aflagast. Skekktar felgur geta eyðilagt dýrar hjólalegur. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst: Á Ártúnshöfða (Axarhöfða 16) er fyrirtækið felgur.is en þar eru réttar allar gerðir felgna úr áli eða stáli með til þess gerðum tækjabúnaði.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)