Honda CR-V. Hérlendis mun gangtruflun vegna fastra útblástursventla, jafnvel í vélum nýlegra bíla, vera algengari en t.d. í Skandinavíu. Bílaframleiðendur hafa átt í vandræðum með að skýra ástæður þessa fyrirbæris, segir í pistli vikunnar.
Honda CR-V. Hérlendis mun gangtruflun vegna fastra útblástursventla, jafnvel í vélum nýlegra bíla, vera algengari en t.d. í Skandinavíu. Bílaframleiðendur hafa átt í vandræðum með að skýra ástæður þessa fyrirbæris, segir í pistli vikunnar.
Honda CR-V: Aukahljóð í hjólabúnaði Spurt: Þegar ég bakka bílnum mínum, sem er Honda CR-V jepplingur af árg. '05 út úr innkeyrslunni heyrist hljóð eins og eitt afturhjólanna taki út í brettaskálina. Þetta hljóð kemur einungis þegar ég legg á stýrið.

Honda CR-V: Aukahljóð í hjólabúnaði

Spurt: Þegar ég bakka bílnum mínum, sem er Honda CR-V jepplingur af árg. '05 út úr innkeyrslunni heyrist hljóð eins og eitt afturhjólanna taki út í brettaskálina. Þetta hljóð kemur einungis þegar ég legg á stýrið. Þegar ég ek bílnum beint af augum er allt eðlilegt en þetta hljóð kemur af og til, t.d. í beygjum. Getur þetta verið biluð hjóllega eða ...?

Svar: Þessi jepplingur er búinn sjálfvirku fjórhjóladrifi. Það þýðir að þegar ekki er þörf á auknu veggripi, t.d. í beygjum, er einungis framdrifið virkt. Um leið og lagt er á stýrið tengir sjálfvirk diskakúpling afturdrifið. Kúplingin, sem er sambyggð afturdrifinu, inniheldur sérstakan silikon-vökva (1,3 lítra). Þessi vökvi endist takmarkaðan tíma og hann þarf að standast ákveðinn eiginleikastaðal frá Honda. Hljóðið sem þú heyrir, þegar lagt er á stýrið, kemur frá þessari kúplingu þegar hún tengir og segir að komið sé að því að endurnýja þennan vökva. Það færðu gert á næstu smurstöð. (Festist jepplingur með þessa gerð fjórhjóladrifs, án læsingar á milli fram- og afturdrifs, í snjó eða aur, er fjórhjóladrifið óvirkt nema lagt sé á stýrið!)

Fastir ventlar?

Hérlendis mun gangtruflun vegna fastra útblástursventla, jafnvel í vélum nýlegra bíla, vera algengari en t.d. í Skandinavíu. Bílaframleiðendur hafa átt í vandræðum með að skýra ástæður þessa fyrirbæris og hafa m.a. giskað á að orsökin kunni að vera kaldara loftslag. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, eftir að hafa komið að þessu vandamáli hjá fleiri en einu bílaumboði, að orsökin hérlendis sé samspil lélegra bensíns og umferðarhátta á höfuðborgarsvæðinu (lestargangur til og frá vinnu). Þessi kvilli virðist einungis hrjá vélar með fleiri en 2 ventla á hverju brunahólfi. Oft uppgötvast ekki að gangtruflun sé vegna fastra ventla fyrr en búið er að prófa margt með umtalsverðum kostnaði en engum árangri, sérstaklega vegna þess að gangtruflunin (óreglulegur lausagangur og/eða vélin „missir úr“ á ákveðnum sn.hraða) skilar ekki alltaf bilunarkóða og stundum hverfur truflunin eftir að vélin hefur náð að hitna. Sé um kóða að ræða getur hann verið misvísandi, t.d. „Misfiring“.

Ventlarnir festast vegna þess að sót, vegna ófullkomins bruna (köld vél – sterkari blanda – lausgangur), sem sest á ventilhausa, nær að setjast í ventilstýringar: Ventillinn gengur ekki alla leið upp og heldur ekki þéttu á milli hauss og sætis. Eina örugga aðferðin til að greina fasta ventla er að þjöppumæla kalda vél. Í flestum tilfellum verður að taka heddið af til að losa fasta ventla. Það er kostnaðarsöm aðgerð. Því eru alls konar „undraefni“ í boði sem eiga að „vinna verkið.“ Það segir sig nánast sjálft að efni, sem blandað er í bensín, koma að litlu gagni þar sem þau brenna upp áður en þau snerta stýringar útventlana. Hins vegar er vitað að syntetísk smurolía (smurolía sem unnin er úr fjöleindum en ekki jarðolíu) ásamt reglulegri íblöndun rakaeyðis í bensín, getur komið í veg fyrir að ventlar festist. Ath. Sé isoprópanól notað sem rakaeyðir nægir ein tappafylling af því í aðra hverja áfyllingu bensíngeymis.

Kílreim: Rétt lengd

Þegar kílreim er pöntuð skiptir miklu máli að gefin sé upp rétt lengd og breidd. Breiddin mælist á ytra borði kílsins. Lengdin er ytra ummálið. Sé notaða reimin fyrir hendi eru málin oft lesanleg. Sé svo ekki er auðveldast að mæla rétta lengd með því að klippa reimina sundur.

Ábending

Bón er ryðvörn

Séu 10 ára gamlir bílar skoðaðir sér maður að þeir sem eru ryðskemmdir hafa flestir ryðgað utan frá; lakkið hefur ekki varið stálið. Lakk verður fyrir áreiti og veðrun sem skaðar lakkhjúpinn. Þær skemmdir eru oft ekki sjáanlegar fyrr en ryð hefur náð að myndast og lakkið hlaupið upp. Bón fyllir upp og lokar rifum og rispum í lakkhjúpnum og tryggir að hann veiti nauðsynlega vernd. Gljáinn gerir lakkið vatnsfælið og kemur í veg fyrir að óhreinindi festist á því.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)