Kia Sorento hefur reynst vel. Nauðsynlegt er þó að huga að því t.d. sem hvort tímareim eða -keðja sé í lagi.
Kia Sorento hefur reynst vel. Nauðsynlegt er þó að huga að því t.d. sem hvort tímareim eða -keðja sé í lagi. — Morgunblaðið/Ernir
Tímareim eða tímakeðja? Spurt: Ég er með 2004 árgerð af Kia Sorento 2.5 Diesel. Hvort er tímakeðja eða tímareim í þessari vél? Er hægt að sjá það á vél hvort hún er með tímareim eða keðju?

Tímareim eða tímakeðja?

Spurt: Ég er með 2004 árgerð af Kia Sorento 2.5 Diesel. Hvort er tímakeðja eða tímareim í þessari vél? Er hægt að sjá það á vél hvort hún er með tímareim eða keðju?

Svar:

Eldri diesel-vélarnar í Sorento (2,5 lítra) eru með tímareim. (endurnýjun 60-90 þús. km eða 5 ár). Nýrri diesel-vélarnar (2,0 lítra) eru með tímakeðju sem á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af, sé allt með felldu. Öruggasta aðferðin til að ganga úr skugga um hvort keðja eða reim knýr kambása er að lesa sér til í viðhaldskafla handbókarinnar, sem fylgir bílnum, eða hafa samband við viðkomandi umboð og fá upplýsingar beint frá þjónustudeild. Tímareimar eru ódýrari aðferð við að minnka vélarhljóð. Stundum má sjá á tímagírshlífinni, en hún er á þeim enda vélarinnar sem snýr frá gírkassanum, hvort um reim eða keðju sé að ræða. Hlíf yfir reim er yfirleitt úr plasti en úr málmblöndu yfir keðju.

Á maður að sleppa nöglunum?

Spurt: Þú hefur verið að prófa dekk undanfarin ár eins og lesa má á www.leoemm.com. Myndir þú mæla með Toyo harðskeljadekkjum frekar en negldum snjódekkjum hér á höfuðborgarsvæðinu?

Svar: Mér hefur ekki tekist að prófa margar tegundir dekkja því það er seinlegt eins og gefur að skilja. Harðskeljadekkin frá Toyo eru af 4 mismunandi gerðum. Fyrir fólksbíla eru Garit G4 og Garit KX. Ég hef prófað báðar gerðirnar og get mælt með Garit KX. Vegna þess hve gripið er mikið myndi ég velja þau frekar en negld snjódekk. Til að viðhalda gripinu sem bestu borgar sig að þrífa sólann með terpentínu öðru hverju. Naglar fara illa með sóla dekkja, þeir missa hluta gripsins fljótlega, þyngja dekk sem því eru oftar ójafnvægð; þola illa hraða yfir 90 km/klst og endast því skemur en ónegld vetrardekk. Fyrir stærri bíla eru harðskeljadekkin af 2 gerðum, annars vegar Tranpath S1 og hins vegar G02. Ég hef prófað Tranpath með góðum árangri (nota þau reyndar allan ársins hring undir pallbíl). Gripið hefur aldrei svikið. Mér dytti ekki í hug að nota negld snjódekk, a.m.k. ekki hér á suðvestur-horninu. Tranpath eru einstaklega mjúk, hljóðlát og rásfesta áberandi. Þau grípa vel í hálku og snjógrip er meira en ætla mætti í fljótu bragði. Endingu áætla ég a.m.k. 60 þús. km. Séu Toyo Tranpath undir jeppum eða pallbílum þarf að hafa í huga að þau eru ekki torfærudekk; hliðarnar eru með tvöföldu strigalagi og því auðvelt að rífa þær á hvössum hraunnibbum.

Útskeifir Pajero

Spurt: Hvers vegna eru eða virðast „flestir“ Pajero jeppar í umferðinni vera „útskeifir?“. Sé ekki aðra bíla á götunum sem eru með slíka stöðu á dekkjunum?

Svar:

Pajero er með klafafjöðrun að framan og sítengt aldrif en sú fjöðrun ásamt aflbeitingu framhjóla veldur því að þau þvingast inn á við að framan. Rétt stilling er um 1° útskeift (Toe-out) sem breytist í 0°á ferð.

Chrysler: Magnum eða Hemi?

Spurt: Hver er munurinn á Magnum-vél og Hemi-vél (í Chrysler-bíl)?

Svar:

Um er að ræða tvenns konar hedd. Magnum (Chrysler-vöruheiti) sem er af hefðbundinni gerð með kertið skáhallt í hlið brunahólfsins. Hemi (stytting á Hemisperical) er með kertið efst í toppi hálfkúlulaga brunahólfs. Hemi-hedd þolir meiri snúningshraða/ hita án þess að miskveikjun myndist. Hemi-hedd = fleiri hestöfl = meiri kostnaður.

Ábending

Sportfelgur vilja losna

Sportfelgur úr léttmálmsblöndu þenjast við að hitna (þess vegna þarf að yfirfara herslu felgubolta með reglulegu millibili). Nú þegar kólnar getur losnað um felgubolta og vissara að fara yfir þá með útdraganlegum felgulykli eins og fæst á bensínstöðvum.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)