Huyndai Santa Fe eru bílar sem hafa reynst vel. Sitthvað getur þó bilað og hér segir lesendi farir sínar ekki sléttar vegna gangtruflana.
Huyndai Santa Fe eru bílar sem hafa reynst vel. Sitthvað getur þó bilað og hér segir lesendi farir sínar ekki sléttar vegna gangtruflana. — Morgunblaðið/Frikki
Toyota RA-V: Rokkandi lausagangur Spurt: Bifreiðin er Toyota Ra-V árg. '01 bensín. Við gangsetningu í köldu röku veðri sveiflast lausagangurinn en jafnar sig eftir að vélin hefur hitnað. Kerti eiga að vera í lagi. Er þetta eitthvert skynjara vandamál?

Toyota RA-V: Rokkandi lausagangur

Spurt: Bifreiðin er Toyota Ra-V árg. '01 bensín. Við gangsetningu í köldu röku veðri sveiflast lausagangurinn en jafnar sig eftir að vélin hefur hitnað. Kerti eiga að vera í lagi. Er þetta eitthvert skynjara vandamál?

Svar: Í Toyota geta svona sveiflur í lausagangi stafað af því að kælivökva vanti á kerfið, þá gengur skynjari í vatnsganginum þurr með þessum afleiðingum. Sveiflukenndur lausagangur getur bent til sogleka. Rektu allar slöngur sem þú sérð, grannar sem sverar (athugaðu sérstaklega bremsukútinn), kannaðu hvort soggreinin geti verið laus og hvort öndunarkerfið á vélinni sé þétt og virkt. Ástæða getur verið til að endurnýja bensínsíu sé hún ekki nýleg. Gangtruflanir í röku lofti geta verið vísbending um lélega kertaþræði.

Vanti þig aðstoð við að finna þessa bilun – án þess að hún kosti „augun úr“ – færðu hana hjá Olís-smurstöðinni í Sætúni 4.

VW Golf 1400 '98: Ónýt vél?

Spurt: 1) Vélin brenndi ventil, reykti mikið og komu reykský úr útblæstri við inngjöf. Skipt var um ventilinn. Eftir 1.000 km brenndi hann aftur ventil og þá var farið að athuga þetta betur og kenndi ég óþéttum stimpilhringjum um. Nú hefur bílnum verið ekið 400 km og á þeim speli brenndi vélin þremur lítrum af smurolíu. Hvað getur orsakað þetta? Nýir hringir, nýjar ventlaþéttingar nýslípaðir ventlar og samt hverfur af honum olían? Getur einhver sogbúnaður valdið þessu?

2) Hefur þú heyrt að heddpakkningar í LandCruiser 80 með 4,2 gefi sig oft?

Svar: Gefum okkur að vélin sé rétt sett saman. Á þessari vél er öndun með hringrásarkerfi og einstefnuloka. Óhreint gas, sem myndast í sveifar- og ventilhúsi, á að sogast inn í brunahólfin og brenna (mengunarvörn sem nefnist PCV = Positive Crankcase Ventilation). Á milli sveifarhúss og soggreinar er einstefnuloki (PCV-loki) og í honum kúla sem á að hringla laus til merkis um að lokinn sé opinn í aðra áttina. Þegar þessi loki eða lagnir að/frá honum stíflast safnast upp froða, tjara og skúm innan í vélinni sem teppir smurolíurásir, jafnvel að því marki að vélin yfirhitnar, smurolía þrýstist út með samskeytum og fleiru. Upptökusía smurdælunnar getur teppst. Afleiðingin getur orðið slit þannig að bora þarf blokkina eða endurnýja. Ástæða endurtekinnar eyðileggingar ventils getur verið bilun í innsprautukerfi, t.d. ónýtur spíss eða leki með soggrein. Eðlileg smurolíunotkun er einn lítri á 1.200 til 1.500 km.

Varðandi Toyota LC80 4.2: Heddpakkning í turbo-diesel-vélum, með blokk og hedd úr álblöndu, er yfirleitt til friðs sé kælivökvi endurnýjaður reglulega á 2-3 ára fresti, einnota-heddboltar hertir á réttan hátt og í réttri röð.

Hyundai SantaFe: EGR-vandamál

Spurt: Ég á Hyundai SantaFe Diesel Lux (keyptur nýr í nóv. 2006). Í vor fór að bera á gangtruflunum og þurfti að hreinsa og liðka upp ERG-loka. Nú í október fór vélin ekki í gang. Þá kom í ljós að þessi loki stóð aftur opinn. Hann var hreinsaður aftur og allt í lagi með bílinn núna. Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir svona bilun?

Svar: EGR = Exhaust Gas Recirculation er tölvustýrt hringrásarkerfi tilheyrandi eldsneytis- og mengunarvarnarkerfi vélarinnar. Kerfið beinir hluta afgassins aftur inn í brunahólfin við ákveðnar aðstæður (hitastig, álag, sn. hraði). Súrefnissnautt afgasið þynnir blönduna; brunahitinn lækkar um 15-20 °C sem breytir efnahvörfum. Við það myndast minna af nituroxíðum í útblæstrinum (NOx) – en auk þess að vera gróðurhúsalofttegund eru nituroxíð eitruð og valda m.a. súru regni sem eyðir skógum t.d. í Bandaríkjunum. (Nituroxíð eru hluti af hættulegri loftmengun sem myndast í miðborg Reykjavíkur (rauðgula skýið á vetrum).

EGR-hringrásarkerfinu stjórnar sjálfvirkur keiluloki, ýmist raf- eða sogstýrður. EGR-lokinn á að haldast þéttur á meðan vélin er að ná vinnsluhita. EGR-rásin á ekki að virka (opna) fyrr en við ákveðið hitastig og inngjöf/álag. Festist þessi loki er það næstum undantekningarlaust vegna óeðlilegrar sótmyndunar. Orsök hennar getur verið vegna lélegra spíssa, ójafnrar þjöppunar (lekur upp með spíssum), mengaðs eldsneytis. Algengur fylgifiskur þessa ástands er óeðlileg sótmyndun í millikæli og pústþjöppu. Fremur sjaldgæft er að EGR-lokann megi ekki liðka sé það gert af kunnáttu. Myndi ráðleggja þér að láta skoða þetta hjá Framtaki/Blossa í Garðabæ sértu á Reykjavíkursvæðinu.

Ábending

Góð dekkjakaup

Ég valdi ný ónegld vetrardekk frá BFGoodrich, 195 65-15, til að prófa undir Daewoo Nubira Station. Frábært grip, rásfesta, hljóðlát, lítið vegviðnám og er því léttur í stýri. Gangurinn kostar 6 þúsund krónum minna en negld snjódekk og 14 þúsund krónum minna en harðskeljadekk.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)