Nissan Patrol eru öflugir og góðir jeppar sem reynst hafa vel hérlendis. 
„Hann dó skyndilega eins og kippt úr sambandi. Er einhver pungur á olíuverkinu fyrir ádreparann? Eða dettur þér eitthvað annað í hug?“ segir í bréfi til Leós.
Nissan Patrol eru öflugir og góðir jeppar sem reynst hafa vel hérlendis. „Hann dó skyndilega eins og kippt úr sambandi. Er einhver pungur á olíuverkinu fyrir ádreparann? Eða dettur þér eitthvað annað í hug?“ segir í bréfi til Leós.
ESP-takkinn Spurt: Ég á Suzuki Grand Vitara Lux V6. Í borðinu er takki, sem á stendur ESP OFF. Ég hef ekki getað fundið út hvaða hlutverki þessi takki gegnir? Svar: ESP = Electronic Stability Program er sjálfvirkt tölvustýrt stöðugleikakerfi.

ESP-takkinn

Spurt: Ég á Suzuki Grand Vitara Lux V6. Í borðinu er takki, sem á stendur ESP OFF. Ég hef ekki getað fundið út hvaða hlutverki þessi takki gegnir?

Svar: ESP = Electronic Stability Program er sjálfvirkt tölvustýrt stöðugleikakerfi. Þessi öryggisbúnaður notar breytur frá ABS-hjólnemum (en þeir mæla snúningshraða hjóla), flóttaafls- og hallanemum, hraðanema, inngjafarstöðunema og fleira til að taka í taumana, t.d. þegar bíllinn byrjar að skrika til hliðar vegna hálku eða þegar bíll er á mörkum þess að vera undir- eða yfirstýrður, til dæmis við að farið er of hratt í beygju, t.d. á malarvegi, þ.e.a.s. um það bil að missa veggrip. Kerfið beitir ABS-bremsunum og rafknúnu aflstýrinu til að rétta kúrsinn: Bílstjórinn finnur greinilega hreyfingu stýrishjólsins (sé um rafstýri að ræða) sem ekki er af hans völdum. Með takkanum geturðu aftengt þetta kerfi – sem getur stundum verið nauðsynlegt við sérstakar aðstæður, ekki síst sé spólvörn innifalin í kerfinu).

Saab 9-3: Kælivökvi

Spurt: Ég á Saab 9 3. Í handbókinni eru talin upp fjölmörg atriði, sem á að fara yfir eftir vissan tíma. En hvergi er minnst á að skipta eigi um frostlög, bara að bæta á eftir þörf. Hvergi er minnst á hvernig tappa eigi kælivökvanum af kerfinu. Á ekki við um þessa bíla, eins og flesta eða alla bíla, að þetta sé gert á um 3ja ára fresti? Allt sem sagt er um frostlög í þessari bók, er að aðeins skuli notaður Saab-frostlögur blandaður til helminga með vatni og kúturinn sé hálfur þegar vél er köld og bætt á þegar yfirborðið fer niður fyrir hálfan kút. Þetta finnst mér ansi snubbóttar upplýsingar, en geta þær verið réttar?

Svar: Þessi Saab er einn þeirra bíla sem aldrei á að þurfa að endurnýja kælivökvann á og gildir það um alla bíla frá GM í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Hvort menn treysta því eða ekki er undir hverjum og einum komið (ég geri það ekki). Kælikerfi er auðvelt að skola út með því að aftengja hosur. Betur búnar smurstöðvar hafa tæki til að tæma, fylla á og lofta kælikerfi. Flestar vélar eru með hedd úr áli. Súrni kælivökvi, en það vill hann gera með aldri, getur hann valdið tæringu og leka með heddpakkningu = dýrri viðgerð. Kælivökvi kostar ekki mikið og því ekki ástæða til að taka áhættu í þessu efni. Bendi á að hjá Poulsen fæst Valvoline-kælivökvi á hagstæðu verði sem er með 5 ára tæringarvörn.

Nissan Patrol: Steindauður

Spurt: Er með Patrol 2000 árg. Hann dó skyndilega eins og kippt úr sambandi. Er einhver pungur á olíuverkinu fyrir ádreparann? Eða dettur þér eitthvað annað í hug? Búinn að ath. öll öryggi, prófaði að losa spíss og dæla upp en fékk ekki neitt. Ég fæ olíu í gegnum síu. Er þetta þá segullokinn sem er að stríða mér?

Svar: Það er rafsegulloki á olíuverkinu sem opnar og lokar fyrir streymi. Byrjaðu á að athuga hvort eldsneyti berist frá síunni í gegn um (fæðidælan) rafsegullokann þegar straumi er hleypt á hann. Opni lokinn ekki fær spíss ekki eldsneyti. Þeir sem þekkja þessi kerfi byrja á því að mæla hvort straumur skilar sér til rafsegullokans – ef ekki hvort öryggið fyrir rafsegullokann og straumlokan séu í lagi (straumlokan á að vera í kassa á vinstra innra brettinu merkt Injection control).

Ábending

Keðjurnar eru gleymdar

Nú teljast snjódekk sjálfsagður hlutur og leitun mun vera að almennum bíleiganda í þéttbýli sem á snjókeðjur og jafnvel þótt hann ætti þær myndi hann hugsa sig um tvisvar áður en hann setti þær undir. Nú eru 6 áratugir síðan Emanúel Morthens sem þá rak Barðann hf. byrjaði að sóla dekk með snjógripi. Fáir trúðu því að snjódekkin myndu leysa keðjurnar af hólmi. Það breyttist eftir að strætisvagnar á snjódekkjum sýndu akstur upp snævi þakta skíðabrekku á Ártúnshöfða veturinn 1955.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)

skíðabrekku á Ártúnshöfða veturinn 1955.