Mikilvægt er að láta smyrja bílinn reglulega og að notuð sé smurolía sem stenst skilgreinda eiginleika ákveðinna alþjóðlegra staðla sem framleiðandi bílsins tiltekur. Sú olía er undantekningarlaust ekki sú ódýrasta.
Mikilvægt er að láta smyrja bílinn reglulega og að notuð sé smurolía sem stenst skilgreinda eiginleika ákveðinna alþjóðlegra staðla sem framleiðandi bílsins tiltekur. Sú olía er undantekningarlaust ekki sú ódýrasta. — Morgunblaðið/Ernir
Gömul Corsa: Gangtruflun Spurt: Opel Corsa, 2000 árgerð, sem hefur gengið ótrúlega vel, hingað til. Hann tók uppá því í vetur að fara ekki gang, – yfirleitt þegar hann var heitur.

Gömul Corsa: Gangtruflun

Spurt: Opel Corsa, 2000 árgerð, sem hefur gengið ótrúlega vel, hingað til. Hann tók uppá því í vetur að fara ekki gang, – yfirleitt þegar hann var heitur. Dóttir mín fór á honum í skólann og þegar hún ætlaði að gangsetja hann aftur eftir eina eða tvær klst. þá átti hann til að neita. Núna drepur vélin á sér þegar draga á úr ferð. Hún hélt áleiðis í Borgarfjörð. Þá drap vélin á sér áður en hún kom að Hvalfjarðargöngunum, fór síðan aftur í gang eftir smástund en drap aftur á sér á hringtorginu þegar hún kom uppúr göngunum. Henni tókst þó að koma vélinni í gang og allt virtist eðlilegt þar hún hægði í Borgarnesi. Þar drap vélin á sér og vildi ekki aftur í gang. Bíllinn var dreginn 25 km og rauk þá í gang. Hvað dettur þér í hug að sé að stríða okkur?

Svar: Byrjaðu á því að útiloka rakamettun í bensíni. Til þess fæst rakaeyðir á bensínstöðvum sem hellt er saman við bensínið. Það gæti sparað þér útgjöld að láta kóðalesa vélkerfið. En lýsi bilunarljósið ekki, eins og lýsing þín bendir til, gerir tölvulestur þó sjaldan gagn. Þá er venjulega tvennt sem sem maður byrjar að skoða; toppstöðunema (crank sensor) sem getur verið ónýtur eða loftflæðiskynjara í inntakinu á milli lofthreinsara og soggreinar (en hann má stundum hreinsa, sé varlega að því farið). Byrjaðu á toppstöðunemanum.

Mazda 6 Diesel: Smurolíumál

Spurt: Ég á Mazda 6 af árgerð 2004 með 2ja lítra túrbódiesel-vél og handskiptingu; mjög þægilegan og sparneytinn bíl. Hann er kominn í 140 þús. km. Fyrir nokkru fór að bera á auknum reyk í útblæstri og að smurolían hyrfi örar af vélinni en hún hefur áður gert – smurolíueyðslan er um 1 lítri á hverja 1.2001500 km. Ég hef alltaf látið endurnýja smurolíuna á 15 þús. km. fresti og í handbók stendur að óhætt sé að nota smurolíuna 20 þús. km. sé sú notkun innan 12 mánaða. Mér hefur verið sagt að smurolíubrennsla sé algengur kvilli bæði í bensín- og dieselvélum frá Mazda. Er það rétt? Mér er einnig sagt að orsökin sé slit. Er það rétt? Og að lokum langar mig að vita hver sé ásættanleg smurolíunotkun svona dieselvélar?

Svar: Þessar 2ja lítra dieselvélar í Mazda 6 og fleirum eru engir gallagripir. Þvert á móti hafa þær reynst vel, ekki síst hjá atvinnubílstjórum sem jafnvel hafa náð 500 þús. km. endingu með litlum viðhaldskostnaði. Vandinn er sá að sumir einblína á 17 eða 20 þús. km. endingu smurolíu (og síu) en gleyma því að það er afstæð tala: Í fyrsta lagi miðast hún við að notuð sé smurolía í sérstökum gæðaflokki og sem stenst skilgreinda eiginleika ákveðinna alþjóðlegra staðla sem framleiðandi bílsins tiltekur og sú olía er undantekningarlaust ekki sú ódýrasta á markaðnum. Það gefur augaleið að sé ekki hægt að treysta því að rétt olía sé sett á vélina getur það haft veruleg áhrif á slit. Á vélinni er lokuð hringrásar-öndun (PCV) og það kerfi á að hreinsa samtímis olíuskiptum. Teppist þetta öndunarkerfi getur það valdið óeðlilegri smurolíubrennslu. Algeng orsök olíubrennslu er vegna slitinna stimpilhringja (oftast vegna þess að röng smurolía hefur verið notuð), einnig getur smurolía lekið niður með ventlaleggjum sogventla vegna ónýtra þéttinga sem eru úr plasti. Rétt smurolía fyrir þess vél er meðal annars Valvoline SynPower MST 5W-30.

Ábending

Notum náttúruöflin

Í stað þess að hamast krókloppinn við að skafa gikkfast hrímið af framrúðunni skaltu taka með þér út tveggja lítra kókflösku fulla af pelavolgu vatni. Hellir því á framrúðuna, setur þurrkurnar í gang og brunar burt.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)