Hyundai Santa Fe hafa notið mikilla vinsælda hér á landi og henta vel til dæmis úti á landi þegar fólk þarf að komast um fannhvíta jörð, eins og nú liggur yfir landinu okkar góða. Þetta eru þó engir torfærutröll í ófærð.
Hyundai Santa Fe hafa notið mikilla vinsælda hér á landi og henta vel til dæmis úti á landi þegar fólk þarf að komast um fannhvíta jörð, eins og nú liggur yfir landinu okkar góða. Þetta eru þó engir torfærutröll í ófærð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Farangursrými er merkilega stórt og ætti að duga flestum fjölskyldum til lengri ferðalaga eða stórjólainnkaupa þessa dagana. Mjög stór hurð er að aftan sem auðveldar mjög inn- og úthleðslu.

Nú er tími jeppanna og margir vildu eiga einn slíkan í snjónum sem nú liggur yfir landinu. Úr mörgu er að velja þegar kemur að jeppum og jepplingum, en einn þeirra er Hyundai Santa Fe, sem reynsluekið var í talsverðum snjó nýlega. Taka skal sérstaklega fram að Santa Fe á ekkert skylt við jólasveininn þó nafnið gæti gefið það til kynna, heldur er hann skírður eftir borg í fylkinu Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum.

Mjög margir eigendur eru að Santa Fe hér á landi og líklega eru fleiri þeirra með bensínvél en díselvél, en nú er svo komið að umboð Hyundai, Ingvar Helgason, selur hann eingöngu nú með díselvél. Hann er þó einnig framleiddur með 2,4 og 3,5 lítra bensínsvélum. Til stendur reyndar hjá umboðinu að bjóða 2,4 bensínbílinn, sem er 174 hestafla, í mars á næsta ári með metanbúnaði sem settur verður í bílinn hér á landi. Sá bíll mun kosta undir 6 milljónum króna, þ.e. rétt um milljón minna en dísilbíllinn.

Skemmtileg díselvél

Hyundai Santa Fe telst til jepplinga og er einn af þeim stærri í þeim flokki, reyndar ásamt systurbíl sínum Kia Sorento. Hann er nokkuð kraftalegur bíll í útliti og laglegri en síðasta kynslóð hans. Það fer honum líka vel að vera kraftalegur því það býr sannarlega kraftur undir húddi hans. Þar býr 2,2 lítra og 197 hestafla Commonrail díselvél með 436 Nm ógnartog.

Með þessari vél er Santa Fe mjög sprækur bíll sem gaman er að gefa inn, en í leiðinni er þessi vél sparneytin og eyðir aðeins 7,2 lítrum í blönduðum akstri. Öllum þessum hestöflum skilar vélin strax í 1.800 snúningum svo það þarf ekki lengi að bíða eftir skemmtuninni við aksturinn.

Stíf fjöðrun

Sjálfskiptingin er mjög góð og finnst lítið fyrir skiptingum, en bíllinn er aðeins í boði sjálfskiptur hérlendis þó svo hann sé framleiddur einnig beinskiptur. Fjöðrun bílsins er eitt af því fáa sem hægt er að setja út á, en á ójöfnum og mismikið troðnum snævi þöktum götum var hann full hastur og át ekki nógu vel upp ójöfnur. Skoppaði bíllinn talsvert fyrir vikið og olli það óöryggi í akstrinum. Fjöðrunin virðist því örlítið of stíf. Einnig hallast yfirbygging fullmikið í beygjum og má aftur kenna fjöðruninni um.

Að öðru leyti fer þessi bíll afar vel með farþega og mjög gaman er að aka honum. Skemmtanagildið er samt talsvert meira fólgið í vélinni en undirvagninum og tilfinningin fyrir stýringu og veginum sjálfum mætti vera meiri. Beygjuradíus uppá 10,8 m fyrir þetta stóran bíl gerir hann lipran í meðförum í borgarumferðinni.

Notadrjúgur og fallegur

Að innan er Santa Fe vel frá genginn og fallegur. Hann má bæði fá með tau- og leðuráklæði og fimm eða sjö sæta. Staðalbúnaður er góður og upplýstir upplýsingaskjáir eru allir bláir og gera mælaborðið sérlega fallegt í myrkri. Einn skjár er fyrir stillingar á útvarpi og hljóðkerfi og annar fyrir stillingar á hitastýrðri miðstöðinni. Öll hugsanleg tengi eru í bílnum, USB, iPod og Aux og sex hátalarar auk bassahátalara sjá til þess að hljómlist skili sér vel. Óvenjuleg en flott staðsetning er á baksýnismyndavél, en hún er á vinstri helmingi baksýnisspegilsins og birtist aðeins þegar bíllinn er í bakkgír. Mörg geymsluhólf og vel staðsettir drykkjarvöruhaldarar auka enn á þægindin.

Farangursrými er merkilega stórt og ætti að duga flestum fjölskyldum til lengri ferðalaga eða stórjólainnkaupa þessa dagana. Mjög stór hurð er að aftan sem auðveldar mjög inn- og úthleðslu úr farangursrými. Með skrikvörn, stöðugleikastýringu, læst drif og fimm stjörnur í öryggisprófunum Euro NCAP er Hyundai Santa Fe öruggur bíll og góður fyrir íslenskar aðstæður, ekki síst nú á fannhvítri jörð.

finnurorri@gmail.com

Lögreglan er með 30 Hyundai Santa Se í útgerð

Góð reynsla af alhliða bílum

Bílamiðstöð Ríkislögreglustjóra, sem miðlar bílum til lögregluembættanna hringinn í kringum landið, er með alls þrjátíu Hyundai Santa Se bíla í flota sínum. Hina fyrstu fékk miðstöðin árið 2002 og hefur síðan verið að taka inn tvo til fimm nýja bíla þessarar gerðar á ári hverju. Í dag er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með sex bíla af þessari tegund en hinir eru hjá embættunum úti á landi og þykja duga sérstaklega vel við aðstæður þar. „Þetta eru fínir vinnubílar sem duga vel á malarvegunum. Núna erum við komnir með bráðum tíu ára reyslu af þessum bílum og erum ánægðir eftir þann tíma,“ segir Agnar Hannesson rekstrarstjóri bílamiðstöðvarinnar.

„Reynsla okkar af Santa Fe er góð. Þetta eru alhliða bílar sem hafa lága bilanatíðni og þurfa varla á verkstæði nema vegna almenns viðhalds. Hafa dugað okkur vel á ferðum hér út um sveitirnar. Þetta er vissulega enginn ófærðarbíll en stendur þó vel fyrir sínu,“ segir Sigurður Brynjúlfsson yfirlöregluþjónn á Húsavík. Embættið þar er með tvo Santa Fe í útgerð – auk þess að vera með Volvo og Nissan Patrol. Segir Sigurður Volvoinn almennt henta vel sem neyðarakstursbíl og Patrol í ófærðarslarki og ferðum inni á hálendinu.