Þessi nýjasta árgerð af Toyota Avensis er talsvert breytt frá þeirri síðustu. Að utan er breytingin augljós; bíllinn hefur fengið gerbreyttan framenda sem er allur orðinn yddaðri og sportlegri
Þessi nýjasta árgerð af Toyota Avensis er talsvert breytt frá þeirri síðustu. Að utan er breytingin augljós; bíllinn hefur fengið gerbreyttan framenda sem er allur orðinn yddaðri og sportlegri — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í síðustu viku kom til landsins nýjasta útfærsla hins vinsæla Toyota Avensis en forverar hans eru algengir hérlendis. Þessi bíll, af árgerð 2012, er talsvert breyttur frá árgerðinni á undan þó ekki sé um að ræða kynslóðabreytingu.

Í síðustu viku kom til landsins nýjasta útfærsla hins vinsæla Toyota Avensis en forverar hans eru algengir hérlendis. Þessi bíll, af árgerð 2012, er talsvert breyttur frá árgerðinni á undan þó ekki sé um að ræða kynslóðabreytingu. Að utan er breytingin augljós og talsverð, en hann hefur fengið gerbreyttan framenda sem er allur orðinn yddaðri og sportlegri og virðist liggja neðar. Afturendinn er einnig mikið breyttur og hefur fengið sterkari svip. Er þar átt við langbaksgerðina en þannig var þessi fyrsti bíll sem kominn er til landsins.

Ef horft er eftir hliðunum frá öðrum hvorum endanum sést að hann hefur fengið mittislínu þar sem gluggarnir eru talsvert inndregnir frá hurðunum og úr verður stallur, ekki ólíkur og sést á mörgum gerðum Volvo-bíla. Allt er þetta bílnum til fegrunar. Auk þess eru nú Led-ljós að framan og hann kemur á gullfallegum álfelgum með lituðu innra byrði. Allar breytingarnar lýsa meiri djörfung og eru bílnum til framdráttar.

Allt nema gin og tónik

Að innan er Avensis einnig töluvert uppfærður. Hann er með nýjum sætum, þó ekki rafdrifnum en mjög þægilegum og auðstillanlegum. Mælaborðið hefur lítið breyst en tilkoma Touch & Go kerfisins sem fyrst var kynnt í hinum nýja Yaris kallar á snertiskjá í miðju þess en þar má stjórna ýmsum aðgerðum. Í þessu fjöltæknikerfi er falið leiðsögukerfi á íslensku sem svínvirkar. Þar má stjórna símaaðgerðum gegnum Bluetooth-kerfi, sem og hljóðkerfinu og í skjánum er bakkmyndavél sem kviknar á ef sett er í bakkgír.

Þessi fullkomni búnaður er Toyota til hróss því allt er mjög einfalt og auðstjórnað og á stórum snertiskjár. Þessi búnaður er með enn fleiri möguleikum en kom fyrst í Yaris og þar má hreinlega gera flest nema panta tvöfaldan gin og tónik! Miðstöðin er hitastýrð og tvívirk, þ.e. fyrir sinn hvorn framsætisfarþega. Bíllinn er nú mun betur hljóðeinangraður en forverinn.

Margir vélarkostir

Reynsluaksturbíllinn var með 1,8 l. bensínvél en búast má við að mest muni seljast af honum sem fyrr. Þessi vél er 147 hestöfl og tengd við hina vel þekktu og ágætu VVT-i 6 gíra sjálfskiptingu. Þessi vél dugar bílnum ágætlega en eins og talan um upptak hennar, 10,7 sek. í hundraðið, bendir til er hún ekki sérlega snörp. Því má úr bæta með því að velja 2,0 l bensínvélina en þá er bíllinn reyndar 1,5 milljónum dýrari en er þá í lúxusútfærslu með leðurinnréttingu.

Avensis má einnig fá með 2,2 l díselvél en samdóma álit bílablaðamanna er að þannig búinn sé hann verri kostur og þung díselvélin skemmi verulega góða aksturseiginleika hans. Með 1,8 l bensínvélinni er eyðsla í blönduðum akstri 6,8 lítrar og 8,7 í akstri innanbæjar og það stemmdi mjög vel við reynsluaksturinn á honum.

Þessar tölur slá engin met, en hafa verður í huga að Avensis er nokkuð stór bíll og sem hlaðbakur er hann fullbúinn til lengri ferðalaga, með mjög stórt farangursrými og gott rými fyrir fimm farþega

Dæmigerð Toyota

Reynsluakstur Avensis var ljúfur og þægilegur og góð fjöðrun bílsins kom berlega í ljós í þeirri erfiðu færð sem klakabunkarnir valda íbúum höfuðborgarinnar þessa daga. Yfir þá fór hann fimlega og fumlaust. Stýring Avensis er nákvæm og tilfinning fyrir vegi góð og almennt séð er einstaklega auðvelt og þægilegt að aka bílnum. Stýrið er einstaklega létt og sumir hafa hnýtt í að það sé of létt en það rímar ekki við skoðun reynsluökumanns.

Avensis er ekki smíðaður sem sportbíll og hann er ekki búinn til mikilla átaka og hröðustu beygja, en það er jú ekki það sem flestir kaupendur hans eru að sækjast eftir. Avensis virkar mjög þéttur og vel smíðaður, en hvernig má annað vera þegar um Toyota er að ræða? Kaupendur hans mega búast við því að hann endist von úr viti og að endursöluverð hans verði hátt. Þangað til má búast við fáum heimsóknum á verkstæði, en þeim þarf ekki að kvíða ef Toyota á Íslandi heldur áfram að þjóna eigendum Toyota-bíla eins vel í framtíðinni og fyrirtækið hefur gert lengi.

finnur.orri@gmail.com

Toyota Avensis er bíll úthverfafólksins

Rýmið eins og Saga Class

Rúmgóður bíll sem uppfyllir öll helstu viðmið fólks um öryggi og þægindi, segir Sigurrós Pétursdóttir, vörustjóri Toyota á Íslandi, um hina nýju útgáfu af Toyota Avensis. „Frá fyrri útgáfu af Avensis hafa ýmsar breytingar verið gerðar sem eru allar til bóta. Bíllinn er mjög þægilegur í stýri og næmur, fjöðrun er stífari og yfirbygging er sterkari. Þá er bíllinn afar rúmgóður að innan og mikið pláss bæði fyrir ökumann og farþega. Í fluginu er stundum haft á orði hve þröngt sé um farþega en engum ofsögum er sagt að þessi bíll sé líkastur Saga Class hvað pláss varðar,“ segir Sigurrós.

Nýr Toyota Avensis er bíll sem hentar vel fjölskyldu með tvö til þrjú börn enda er markhópurinn fólk á aldrinum 35 til 50 ára. Með einföldun má segja að bíllinn henti sérstaklega vel íslensku úthverfafólki; á höfuðborgarsvæðinu þeim sem búa í Grafarvogi, í efri byggðum Kópavogs eða í suðurhverfum Hafnarfjarðar.

„Í nýjum Avensis eru margar tækinýjungar. Ég get til dæmis nefnt þar sjálfvirkan ljósabúnað og loftkælingu sem og fjölnota snertiskjá sem er til mikilla þæginda fyrir ökumann, en þarna tengjast við sími, leiðsögubúnaður, bakkmyndavél og fleira. Já, og svo er miðjustokkurinn í bílnum endurhannaður og mjög skemmtilegur en þar er mörgum tækninýjungum fyrir komið.“