Volvo XC60 er vel lukkaður bíll, mjög vel búinn nýjustu tækni og hlaðinn öryggisbúnaði eins og reyndar allir bílar fyrirtækisins.
Volvo XC60 er vel lukkaður bíll, mjög vel búinn nýjustu tækni og hlaðinn öryggisbúnaði eins og reyndar allir bílar fyrirtækisins. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir vikið hafa tryggingafélög sumstaðar erlendis veitt vænan afslátt á tryggingum XC60-bíla enda verða æði mörg umferðaróhöpp einmitt við framangreindar aðstæður. Annar öryggisbúnaður bílsins er eins og hann gerist bestur, enda Volvo alveg í sérflokki hvað það varðar

Jepplingurinn Volvo XC60 kom fyrst á markað árið 2008 og hefur verið í framleiðslu í verksmiðjum Volvo í Ghent í Belgíu allar götur síðan. Segja má að hann hafi slegið í gegn frá upphafi og var hann til að mynda söluhæsti bíll Volvo árið 2009 og selst enn feikivel. Það er heldur ekki að ástæðulausu. Volvo XC60 er einstaklega vel lukkaður bíll, mjög vel búinn nýjustu tækni og hlaðinn öryggisbúnaði eins og reyndar allir bílar fyrirtækisins. Hann er auk þess með allra hæstu jepplingum undir lægsta punkt eða 23 cm frá jörðu og slær reyndar við flestum nýjum jeppum í þeim efnum.

Volvo XC60 var tekinn til kostanna af blaðamanni og fyrir valinu varð díselknúinn bíll með öflugri díselvélinni af þeim tveimur sem í boði eru. Reyndar er það svo um þessar mundir að allir Volvo-bílar sem í boði eru hér á landi eru díselknúnir. Er það nokkuð skýrt merki um hve vel heppnaðar díselvélar Volvo eru orðnar.

Öflug en eyðslugrönn díselvél

Vélin í reynsluakstursbílnum er fimm strokka 2,4 lítra með tveimur túrbínum og skilar 215 hestöflum til allra hjólanna. Í venjulegum akstri fara reyndar 90% aflsins til framhjóla, en þegar á þarf að halda er helmingur aflsins sendur til afturhjóla. Tog hennar er 440 Nm og fyrir því finnst svo um munar. Með þessari vél skortir bílinn aldrei afl og fyrir vikið verður hann einstaklega skemmtilegur í akstri en eyðir samt ekki nema 6,8 l í blönduðum akstri.

Til skemmtilegs aksturs þarf þó fleira en afl. Undirvagn bílsins, sem hann á reyndar sameiginlegan með XC70-, V70- og S80-bílunum, er sérlega vel heppnaður og akstursánægjan eftir því. Volvo XC60 má einnig fá með talsvert aflminni díselvél, 163 hestafla, sem þó hefur sama sprengirými. Sú vél er reyndar með sömu eyðslutölum og sú aflmeiri, en sá bíll kostar fjögur hundruð þúsund krónum minna. Er hætt við að mörgum finnist sá munur of lítill miðað við hvað fæst með þeirri aflmeiri og ekkert vinnst með lægri eyðslu.

Hljóðið sem kemur frá þeirri aflmeiri við inngjöf er eyrnakonfekt og sú staðreynd að það skilar sér talsvert inn í bílinn verður fyrir vikið ekki að galla, frekar kosti. Reynsluakstursbíllinn var með sportfjöðrun sem fylgir R-design-pakkanum sem í boði er og með þeirri fjöðrun líkist bíllinn frekar fimum fólksbíl á sterum og fær ökumann til að brosa út að eyrum.

Öryggi og fágun

Í Volvo XC60 er fjarlægðarskynjari, sem fyrst var einmitt kynntur í þeim bíl, eða City Safety árekstrarvörn sem virkar á litlum hraða og hreinlega kemur í veg fyrir að hægt sé að keyra á í borgarumferðinni. Búnaðurinn stöðvar bílinn ef stefnir í árekstur á undir 30 km hraða. Fyrir vikið hafa tryggingafélög sumstaðar erlendis veitt vænan afslátt á tryggingum XC60-bíla enda verða æði mörg umferðaróhöpp einmitt við framangreindar aðstæður. Annar öryggisbúnaður bílsins er eins og hann gerist bestur, enda Volvo alveg í sérflokki hvað það varðar og endalaus skammstöfunarruna fyrir hin ýmsu öryggiskerfi til vitnis um það.

Innrétting reynsluakstursbílsins var stórglæsileg eins og reyndar í flestum Volvo-bílum nú á dögum. Hana prýddi reyndar R-design-pakkinn ofantaldi sem í felst m.a. leðurklædd sportsæti af allra fallegustu gerð, sportfjöðrun, 18 tommu álfelgur og margt annað sem jók enn á glæsileika bílsins.

Um innréttinguna í heild má auk glæsileika reyndar segja að einfaldleiki ráði ríkjum, íburðurinn ber ekki notagildið ofurliði. Dæmigerð skandinavísk hönnun þar. Rými fyrir aftursætisfarþega er hvorki naumt skammtað né yfirdrifið, en nægt samt. Farangursrými er talsvert stærra en vænta má í jepplingi og er ekki mikill eftirbátur flestra jeppa.

Fasteign á hjólum

Það er mjög langur vegur frá því er Volvo var þekkt fyrir kassalaga og vélarvana sleða sem veitti ökumönnum litla gleði nema ef vera skyldi að sleppa óskaddaðir úr árekstri. Nú framleiðir Volvo gullfallega og framúrstefnulega bíla sem auk alls öryggisins eru góðir akstursbílar, öflugir, sparneytnir, vel smíðaðir og standast því ennþá fullyrðinguna úr eldri auglýsingum: Volvo – fasteign á hjólum . Fyrir alla þessa kosti þarf vissulega að borga, en því er vel varið.

finnurorri@gmail.com

Ætlum að selja 60 bíla í ár, segir Brimborg

Með tilfinningu sportbílsins

„Volvo XC60 hefur fengið góðar viðtökur. Hann kom á markað árið 2009 og hefur frá fyrsta degi selst mjög vel en salan fór að vísu rólega af stað vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Á síðustu misserum hefur hún hins vegar aukist jafnt og þétt og á þessu ári gerum við ráð fyrir að selja tæplega 60 eintök af þessum bílum,“ segir Ágúst Hallvarðsson hjá Brimborg.

Að mati þeirra sem til þekkja hefur Volvo XC60 flesta bestu eiginleika hvers bíls. „Þetta er sportjeppi sem gefur fólki samt tilfinningu fólksbíls. Það eru 23 cm undir lægsta punkt á bílnum sem gerir innstigið í hann afskaplega þægilegt enda er þyngdarpunktur bílsins lágur. Á vegi er bíllinn afskaplega þýður og þægilegur og hann höndlar beygjurnar vel. Í raun er hægt að legga í þær nánast eins og á sportbíl. Eyðslan er líka mjög hófleg,“ segir Ágúst og bætir við að á erlendum mörkuðum hafi bílar þessarar gerðar fengið góðar viðtökur og í raun hafi verksmiðjan í Gent í Belgíu varla haft undan við framleiðslu.

„Hér heima hefur Volvo verið á góðu skriði síðustu árin. Volvo hefur verið með mest seldu lúxusbílum á markaðinum undanfarin ár, enda er Volvo merki sem fólk treystir,“ segir Ágúst.