Volkswagen Tiguan. Bílarnir eru framleiddir í stærstu verksmiðju VW í höfuðstöðvunum í Wolfsburg í Þýskalandi og komu á markað árið 2007. Þeir voru fyrst kynntir hér á landi árið 2008.
Volkswagen Tiguan. Bílarnir eru framleiddir í stærstu verksmiðju VW í höfuðstöðvunum í Wolfsburg í Þýskalandi og komu á markað árið 2007. Þeir voru fyrst kynntir hér á landi árið 2008. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einn af mörgum jepplingum sem í boði eru hér á landi er Volkswagen Tiguan.

Einn af mörgum jepplingum sem í boði eru hér á landi er Volkswagen Tiguan. Bílar þessarar gerðar, sem eru framleiddir í stærstu verksmiðju VW í höfuðstöðvunum í Wolfsburg í Þýskalandi, komu á markað árið 2007 og voru fyrst kynntir hér á landi árið 2008 með pompi og prakt. Á þeim fáu árum sem hann hefur verið í framleiðslu hefur hann selst í yfir 700.000 eintökum sem bæði sýnir þá miklu eftirspurn sem eftir jepplingum hefur verið um allan heim sem og þær góðu viðtökur sem Tiguan hefur fengið. Eins og með marga aðra bíla Volkswagen er Tiguan einkar vönduð smíð og þéttleiki hans og gæði koma strax í ljós við fyrsta akstur. Auk þess er bíllinn mjög snotur að sjá og ekki versnar það eftir að inn í hann er komið.

Ytri hönnun bílsins gæti talist hæversk og snyrtileg og ekki jafn djörf og sést hefur í mörgum öðrum jepplingum. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Nafnið Tiguan stingur nokkuð í stúf og líklega átta sig fáir á hvað það þýðir en nafnið er samsett heiti tveggja dýrategunda, þ.e. „tiger“ og „iguana“. Það var valið úr nokkrum nöfnum frá 350 þúsund álitsgjöfum gegnum vefsíður og bílatímaritið Auto Bild.

Díselvél sem hentar bílnum

Tiguan má fá í margskonar útgáfum. Reynsluakstursbíllinn var af Track & Sport 4MOTION gerð og er sá bíll með hærri framenda en aðrar gerðir og því færari um torfæruakstur þar sem aðfallshornið er brattara. Allar gerðir hans eru með 20 cm undir lægsta punkt eins og gjarnan er með jepplinga. Þrátt fyrir að Tiguan sé framleiddur með bensín- og díselvélum er hann einungis í boði hér á landi með tveggja lítra díselvél, 140 hestafla. Þessi vél er hreint afbragð og gerir meira en að duga honum. Vinnsla hennar er góð á öllum stigum og með vel heppnaðri 7 þrepa DSG-sjálfskiptingu með tveimur kúplingum er aflið ávallt til staðar en samt sem áður er hann eyðslugrannur.

Uppgefin meðaleyðsla hans er 6,0 l og í reynsluakstri sem einungis fór fram á höfuðborgarsvæðinu var bíllinn með rétt ríflega sjö lítra eyðslu, sem teljast verður gott. Það er kannski ekki nema vona að Hekla, umboð VW á Íslandi, bjóði hann einungis með þessari vel heppnuðu vél því flestir eru sammála um að þessi vél henti bílnum best, enn betur en hestaflahærri bensínvélar sem ekki skila jafn miklu togi á lægri snúningi. Auk þess eyðir þessi vél minna eldsneyti og er mjög lágvær.

Svo mikið er víst að Henry Ford hefði verið hrifinn af aðferðafræði Heklu: „Þú getur fengið Tiguan með hvaða vélargerð sem er – bara að það sé tveggja lítra díselvélin.“

Sami undirvagn og í Golf

Tiguan er byggður á sama undirvagni og hinn margverðlaunaði VW Golf sem ávallt fær fyrstu einkunn fyrir ökuhæfni. Það á líka við Tiguan og akstur hans er ekkert ósvipaður og á Golf, sem teljast verður einkar gott fyrir jeppling. Hann hallast einkennilega lítið í beygjum og leggja má svo til jafn mikið á hann og fólksbílinn. Hann fer það allt eins og lipur köttur og það er eins og bíllinn hafi jafn gaman af akstrinum og ökumaðurinn. Fjöðrun bílsins er einstök. Það er næsta ótrúlegt hvað allar ójöfnur deyja í meðförum hans og hraðahindranir eru bara til að hlæja að. Að þessu leyti og á margan annan hátt fór Tiguan langt fram úr væntingum ökumanns.

Innanrými Tiguan er mjög í ætt við aðra Volkswagen-bíla, eða væri kannski réttara að segja þýska? Það á nefnilega við flesta þýska bíla að frágangur að innan er gullfallegur, sérlega notendavænn og smíðin svo vönduð að til eftirbreytni er. Þar er Tiguan engin undantekning því innréttingin er gullfalleg og þægileg í umgengni. Reynsluakstursbíllinn hafði það reyndar með sér að vera með ríkulegustu gerð hennar með leðursæti og einkar vel búinn. Framsætin halda sérlega vel um ökumann og þægindin eins og þau gerast mest.

Kaupendur ekki sviknir

Aftursætisrými er ekkert stórkostlegt, enda bíllinn nokkuð stuttur í annan endann, en höfuðrými er ágætt. Farangursrými er stærra en ætla má og heppilegt til styttri ferðalaga. Tiguan er mjög vel hljóðeinangraður og mjög lítið heyrist í díselvélinni þó hún sé látin snúast talsvert. Veg- og vindhljóð er líka í algeru lágmarki. Stór og fallegur snertiskjár er fyrir miðju mælaborði þar sem útvarpi er stjórnað sem og símaaðgerðum gegnum BlueTooth-tengingu.

Bíllinn er útbúinn Stop/Start-tækni og er hann mjög fljótur að ræsa vélina þegar farið er af bremsunni. Aðdráttar- og veltistýri er í bílnum og með rafstýrðum framsætum reynist hverjum ökumanni auðvelt að finna sína bestu akstursstöðu. Kaupendur Tiguan verða ekki sviknir af gæðunum og akstursánægjunni frekar en aðrir Volkswagen-eigendur og þessi stærð bíls sem samt kemst vel um misgóða vegi landsins er einmitt það sem hæft hefur marga í hjartastað.

finnurorri@gmail.com

Tuguan er jeppi með einkenni sportbíls

Í torfærur með einum takka

„Volkswagen Tiguan hefur verið margrómaður frá því hann kom fyrst á markað,“ segir Margeir Eiríksson sölumaður hjá Heklu hf. „Í þessum bíl fara saman eiginleikar minni gerðar jeppa og hönnunareinkenni sportbíls. Tiguan er ljúfur borgarbíll og þegar út fyrir þéttbýlið er komið má með einum takka virkja kerfi fyrir torfæruakstur og um leið margvísleg stoðkerfi sem tryggja öryggi og getu. Verðið á Tiguan hefur aldrei verið betra með tilliti til þess að nú er bifreiðin búin Bluemotion búnaði sem gerir það að verkum að CO2 gildi bifreiðarinnar er lægra en nokkru sinni fyrr og lendir hún því í lægri vörugjaldsflokki en áður. Sama á við um eyðsluna, sem er með því minnsta sem um getur í sambærilegum bifreiðum.“

Val á aukahlutum í bílinn, umfram staðalbúnað, er mikið eins og vanalega hjá Volkswagen. Þar má nefna Park Assist búnað sem leggur sjálfur í stæði, leiðsögukerfi, leðurklæðningu, sóllúgu, dráttarkrók og svo margt fleira.