Vonlaust að halda óléttunni leyndri

Þyri Huld Árnadóttir og Inga Maren Rúnarsdóttir eiga báðar von …
Þyri Huld Árnadóttir og Inga Maren Rúnarsdóttir eiga báðar von á sér í apríl. Kristinn Magnússon

Dansararnir og vinkonurnar Inga Maren Rúnarsdóttir og Þyri Huld Árnadóttir frumsýna í síðasta skipti í bili með Íslenska dansflokknum á laugardaginn þar sem þær eiga báðar von á barni í apríl. Reyndar eru bara níu dagar á milli þeirra Ingu og Þyri sem segja það hafa verið vonlaust að halda óléttunni leyndri fyrstu vikurnar.

„Það er mjög gaman og gott að hafa einhvern til að tala við sem er að upplifa það sama. Líkaminn er að breytast mikið og því ýmislegt sem maður taldi vera sjálfsagður hlutur eins og að sparka fótunum upp að enni sem fer að verða ómögulegt. Gott að geta ráðfært sig við hvor aðra,“ segir Þyri spurð hvernig það er að verða samferða á meðgöngunni.

„Ég var alveg ómöguleg fyrstu 13 vikurnar mjög óglatt og gat varla gert neitt á meðan Inga var eiturhress og fann ekki fyrir neinu,“ segir Þyri. Inga er þó kannski ekki alveg sammála Þyri og segist líka hafa fundið fyrir ólgeði. „Ég var til dæmis með ógleði á morgnana og kvöldin og fann lítið fyrir því í vinnunni en Þyri var bara allan daginn,“ segir Inga.

Þær Inga og Þyri eru samferða á meðgöngunni.
Þær Inga og Þyri eru samferða á meðgöngunni. Kristinn Magnússon

Það er stutt á milli ykkar og þið vinnið náið saman, grunaði ykkur að þið væruð báðar óléttar áður en þið sögðuð fólki frá?

„Það er ekki hægt að fela neitt á okkar vinnustað. Við vissum þetta um leið og við vorum mættar í vinnuna komnar rúmar 7 vikur á leið,“ segir Þyri og Inga tekur undir. 

„Það er eiginlega ekki hægt að fela þetta í svona litlum hópi sem vinnur svona náið saman. Auk þess var dansflokkurinn að halda prufur svo við létum báðar vita extra snemma svo það væri hægt að gera ráðstafanir. Það þurfti líka að „replace-a“ okkur í annarri sýningunni því það er svo margt sem við getum ekki gert og það tekur tíma að kenna og læra nýtt hlutverk,“ segir Inga.

Þær Inga og Þyri dansa í Dísablóti, nýrri tveggja verka sýningu Íslenska dansflokksins. Þær segja að óléttan hafi haft áhrif á vinnuferlið. 

„Líkaminn verður þyngri og ég finn að jafnvægispunkturinn er að breytast en annars er ég mjög hress og finn ekki fyrir neinum verkjum í líkamanum. Það var heppilegt að Verk nr1 var samið með okkur og vitað að við værum óléttar þannig það var hægt að gera ráðstafanir. Við erum að gera minna en hinir dansararnir sérstaklega í verkinu hennar Ernu,“ segir Þyri.

„Ég má til dæmis ekki hoppa svo það er ákveðið „challange“ í danssýningu að sleppa því. En danshöfundarnir, Erna og Steinunn, eru voðalega skilningsríkir gagnvart þessu og við aðlögum allt til þess að það henti sem best. Svo er líka jafnvægið ekki alveg það sama og vanalega svo það er ákveðin áskorun. En það er gaman að dansa með kúlu, ég dansaði líka mikið síðast þegar ég var ólétt svo litlu bumbubúarnir mínir eru orðnir ansi sviðsvanir áður en þeir koma í heiminn,“ segir Inga sem á von á sínu öðru barni.

Finnur þú fyrir mun á þessari meðgöngu og þeirri fyrstu Inga?

„Já það er munur, verkir sem komu fram síðast eru að koma mun fyrr fram núna til dæmis. En svo er ég líka rólegri yfir þessu, ekkert að missa mig í neinu sérstöku. Leyfi þessu bara að líða einhvern veginn áfram í rólegheitunum. Núna nýti ég tímann mest í að eyða gæðastundum með snúllunni minni á meðan hún er enn ein í sviðsljósi okkar foreldranna. Einnig ákvað ég að fjárfesta í óléttufötum í þetta skiptið. Ég gerði þau mistök síðast að halda að ég gæti nýtt einhver föt áfram eftir óléttu en svo get ég bara með engu móti verið í megninu af þeim. Veit ekki hvað þetta er en einhver tenging gerir það að verkum að hef látið margar ansi fallegar flíkur áfram því ég bara get ekki verið í þeim.“

ÞyriF er hins vegar að ganga með sitt fyrsta barn og segir hún ýmislegt hafa komið á óvart.

„Það kom á óvart hvað líkaminn tekur algjörlega stjórnina ég var önnur manneskja fyrstu 13 vikurnar gat ekkert borðað af því sem ég er vön að borða. Síðan vaknaði ég einn daginn og þá var öll ógleðin farin og ég hressari en nokkru sinnum fyrr. Þetta er bara svo magnað ferli og ég er svo þakklát að fá að upplifa þetta.“

Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert