Fermingargjafir sem Kolbrún Bergþórs mælir með

Það er gamall og góður íslenskur siður að gefa bækur í jólagjöf. Þennan sið á líka að hafa í heiðri við fermingar. Bækur eru kannski ekki það sem nútíma fermingarbarnið óskar sér heitast í gjöf á fermingardaginn, en það á eftir að þakka fyrir sig seinna. Góðar bækur gleðja nefnilega alltaf. Þær þroska þann sem les, fræða hann og víkka sjóndeildarhringinn.

Biblían

Það er ekki að ástæðulausu sem Biblían er nefnd bók bókanna. Þar er að finna mikinn boðskap, sæg af stórbrotnum sögum og gullfallegan texta. Til að skilja vestræna menningu og listasöguna þarf maður að kunna skil á sögum Biblíunnar. Biblían á vitanlega að vera til á hverju heimili.

Biblían.
Biblían.

Passíusálmarnir

Önnur bók sem allir verða að eiga. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar komu fyrst út árið 1666 og hafa fylgt þjóðinni upp frá því. Þessi útgáfa frá Crymogeu er afar fallega hönnuð og með ítarlegum skýringum Marðar Árnasonar.

Passíusálmarnir.
Passíusálmarnir.

Ljóðaúrval Jónasar Hallgrímssonar

Jónas Hallgrímsson er mesta skáld Íslands fyrr og síðar, um það þarf ekki að deila. Ljóð hans eru ódauðleg og þegar svo er þá eiga þau vitanlega heima hjá öllum landsmönnum, ekki síst fermingarbörnum.

Ljóðaúrval Jónasar Hallgrímssonar.
Ljóðaúrval Jónasar Hallgrímssonar.

Íslenskar þjóðsögur

Líf og örlög, trú og hjátrú, tröll, álfar og draugar. Þetta er samsetning sem getur ekki klikkað og hlýtur að falla í kramið hjá ungu fólki, sem flest nýtur þess að láta hræða sig.

Íslenskar þjóðsögur.
Íslenskar þjóðsögur.

Birtíngur eftir Voltaire

Það liggur kannski ekki beint við að gefa Birtíng í fermingargjöf, en þessi hárbeitta og kaldhæðnislega saga er slíkt meistaraverk að vel er við hæfi að kynna hana ungmennum. Þau eru mjög líkleg til að heillast.

Birtíngur eftir Voltaire.
Birtíngur eftir Voltaire.

Ljóðasafn Steins Steinars

Það er hægt að fullyrða að ljóð Steins Steinars höfði einstaklega vel til unglinga. Þar má finna tilvistarlegar og heimspekilegar vangaveltur og sterka einstaklingshyggju ásamt skammti af sjálfsvorkunn sem ungt fólk tengir mjög auðveldlega við.

Ljóðasafn Steins Steinars.
Ljóðasafn Steins Steinars.

Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness

Auðvitað gleymum við ekki nóbelsskáldinu okkar góða. Sjálfstætt fólk er vitanlega skyldulesning eins og allir sem hafa lesið þá skáldsögu gera sér grein fyrir. Því er bæði rétt og skylt að halda henni að ungmennum.

Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.
Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.

Múmínálfarnir – stórbók eftir Tove Jansson

Bækur Tove Jansson um Múmínálfana hafa verið endurútgefnar í þremur stórbókum þannig að þið veljið hvort þið viljið gefa eina, tvær eða bara allar þrjár. Þessar skemmtilegu ævintýraverur í Múmíndal hafa glatt lesendur um allan heim. Bækurnar eru fullar af hlýju, angurværð og fjöri. Allir elska múmínálfana, líka ungmenni.

Múmínálfarnir.
Múmínálfarnir.

Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry

Þessi undurfallega saga, myndskreytt af höfundinum sjálfum, er gimsteinn. Hún er í stöðugri endurprentun og hefur hrifið lesendur um allan heim. Í henni er að finna hin fleygu orð: „Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.“ – Það er full ástæða til að taka undir það.

Litli prinsinn.
Litli prinsinn.

Aðgát og örlyndi eftir Jane Austen

Skáldsaga Jane Austen Aðgát og örlyndi smellpassar fyrir ungar, rómantískar og leitandi sálir. Þarna eru eftirminnilegar persónur sem kljást við alls kyns misskilning en vitanlega fer allt vel að lokum. Bókina prýða fallega myndir.

Aðgát og örlyndi eftir Jane Austen.
Aðgát og örlyndi eftir Jane Austen.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert