Sveppatínsla frábært fjölskyldusport

Ása Margrét útlistar leyndardóma sveppatínslunnar fyrir áhugafólki.
Ása Margrét útlistar leyndardóma sveppatínslunnar fyrir áhugafólki. Ljósmynd/Eyjólfur Magnússon

Ása Margrét Ásgrímsdóttir er enginn venjulegur sveppaáhugamaður því að hún er búin að tína sveppi í tvo eða þrjá áratugi og hefur nú nýverið sent frá sér bókina Matsveppir í náttúru Íslands. Hún segir upplagt að sameina svepptínslu, útivist og ferðalög.

Sjálf fór Ása í síðasta mánuði með hóp af sænskum sveppaáhugamönnum í fimm daga ferðalag um Vesturland og Vestfirði í þeim erindagjörðum að skoða og tína sveppi, reyndar allt alvant sveppatínslufólk þar á ferð. Á laugardag, 5. september, var hún mætt upp í Heiðmörk á vegum Skógaræktarfélags Reykjavíkur til að leiðbeina fólki í sveppatínslu, og seinna um daginn var hún mætt í Hvalfjörðinn til að leiðbeina starfsmönnum Menntamálaráðuneytisins um slíkt hið sama. Áhugi almennings á sveppum er ekki á milli mála, og bókin um matsveppina rokselst.

„Það er hægt að byrja að tína sveppi um miðjan júlí ef tíðin hefur verið vætusöm og hlýtt í veðri, og ég hef jafnvel tínt sveppi í byrjum júlí,“ segir Ása. „Ég hef alltaf tínt sveppi þegar ég fer í útilegur eða tjalda, og hef þá með grillinu. Það er mjög skemmtilegt.“

Ása segir að þó hún sé búin að tína sveppi í tuttugu, þrjátíu ár þá aukist áhuginn bara. „Þetta verður bara skemmtilegra og skemmtilegra. Enda er orðið miklu meira af sveppum heldur en var. Skógarnir eru gjarnan þeirra svæði og skógarnir hafa vaxið mikið á þessum tíma og þroskast. Um leið koma sveppirnir og þeim bara fjölgar tegundunum sem hægt er að tína. Sveppir eru þó engan veginn bundnir við skóglendi, þótt mikið sé af þeim þar, þeir finnast víðar, t.d. í graslendi.“

Ása segir þó oftast aðgengilegast fyrir fólk að fara í sveppatínsluferðir í skógarlundi eða skógarreiti eða skóga sem búið er að opna fyrir almenningi. „Í þessum opnu skógum er víðast hvar búið að útbúa göngustíga svo og aðgengið hefur batnað mikið og svona skógarreiti er núna að finna út um allt land.“

Fjallað um 30 matsveppi

Í bók Ásu er fjallað um 30 matsveppi. „Af þeim eru sumir dálítið erfiðir í greiningu fyrir þá sem eru að byrja og kannski ekki alltaf aðgengilegir. Þeir sem eru auðveldir í greiningu og við allra hæfi eru kannski 10 til 15. Það eru svokallaðir pípusveppir, sveppir sem eru með rörum undir hattinum, sem eru bestir fyrir byrjendur, lang algengastir og bestu matsveppirnir.“

Margir veigra sér við að tína sveppi af ótta við að eitraðir sveppir verði á vegi þeirra. Og Ása segir eitraða sveppi vissulega vera til og jafnvel baneitraða. „ Fólk þarf að passa sig, því að það er nokkrir sveppir sem eru mjög varasamir. Aðallega eru það þó tveir sem geta jafnvel verið banvænir - annar þeirra er mjög algengur hér í Reykjavík, lummusveppur eða garðlumma og fylgir birki. Hinn er miklu minni og ratar síður í körfurnar bara af þeim sökum. Sá heitir viðarkveif. Berserkjasveppur er sömuleiðis algengur, fer fjölgandi og er varasamur, þótt fólk deyi ekki af því borða hann.“

En eru einhverjir staðir á landinu betri en aðrir til sveppatínslu? Ása nefnir strax Norðurland og Austurland. „Á Austurlandi eru auðvitað lerkisveppir í Hallormsstað, mjög stórt svæði og og margir þekkja lerkisveppinn og tína hann enda mjög auðvelt. Á Norðurlandi má nefna Vaglaskóg og fleiri skógarreiti. Þá er Borgarfjörður eða Vesturland yfirleitt nokkuð gott til sveppatínslu. Ég hef minnst farið um Suðurlandið en það er örugglega að koma til með þeirri ræktun skóga sem þar á sér stað. Enn einnig þar sem birkikjarr er fyrir, eins og í Þjórsárdal, því að margir sveppir fylgja birkinu, ekki bara hin eitraði garðalumma sem er aðallega í görðum.“

Af góðum matsveppum sem fylgja birkinu nefnir Ása til að mynda kúalubbann. „Margir sveppanna fylgja ákveðnum trjátegundum. Lerkisveppurinn þrífst ekki nema þar sem er lerkiskógur, furusveppur ekki nema þar er að finna furu og kúalubbinn fylgir birkinu. Þar sem þessi tré eru má hugsa sér að hægt sé að tína sveppi.“

Nýir landnemar koma fram öðru hverju, segir Ása. Til að mynda fannst einn nýr pípusveppur í sumar á Akureyri. Ása segist hafa fundið nokkra nýja sveppi í áranna rás sem hún sendi þá Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttir sveppafræðingi á Akureyri til greiningar en Guðríður sér um að skrá hvar þeir finnast enda oftast um það að ræða að sveppir séu að finnast á landsvæði þar sem þeir hafa ekki verið áður.

Krakkar glúrnir að finna sveppina

Ása segir að í sumar hafi sveppirnir verið fremur seint á ferðinni enda júlí með eindæmum þurrviðrasamur. „En nú er þetta allt komið á fullt. Sveppatímabilið getur staðið alveg fram yfir miðjan september, jafnveli fram undir 20. september, en þegar næturfrostin koma þá er þetta venjulega búið, svipað og með berin.“

Ása Margrét er því önnum kafin yfir sveppatímann, ágúst og september, og henni finnst sveppatínslan skemmtilegri en að tína ber. „Það fylgir sveppunum svolítið óvissa, þeir geta leynst fyrir manni, svo að stundum ferðu og finnur ekki neitt, stundum finnur maður svolítið og þá verður maður svo ákafur og heldur áfram í von um að finna meira. En svo er þetta auðvitað útivera í skógi, það er alveg nauðsynlegt að taka með sér nesti og njóta þess að vera úti.“

Ása segir að sveppatínslan sé í reynd frábært fjölskyldusport.  „Fólk á að taka daginn í þetta, fara út fyrir bæinn, öll fjölskyldan og allir geta tekið þátt í þessu. Krökkum finnst þetta til dæmis mjög spennandi, og eru mjög glúrinn að finna sveppina þó að brýna þurfi fyrir þeim að stinga þeim ekki upp í sig. Kenna þeim að umgangast sveppina og um leið að kenna þeim að ganga fallega um náttúruna.“

Ása Margrét velur 10 góða matsveppi úr náttúru Íslands.

Á annað hundrað manns mætti í Heiðmörk til að njóta …
Á annað hundrað manns mætti í Heiðmörk til að njóta leiðsagnar Ásu. Ljósmynd/Eyjólfur Magnússon
Fjölskyldan sameinast við hreinsun sveppanna.
Fjölskyldan sameinast við hreinsun sveppanna. Ljósmynd/Eyjólfur Magnússon
Krakkar eru glúrnir við sveppatínslu. Hér er Úlfar Jökull, barnabarn …
Krakkar eru glúrnir við sveppatínslu. Hér er Úlfar Jökull, barnabarn Ásu, tilbúinn með sveppakörfuna. Ljósmynd/Eyjólfur Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert