Dagur B. sigraði sjálfan sig

Dagur B. Eggertssson borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertssson borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Andri Snær Magnason rithöfundur voru meðal þeirra sem klifu Hvannadalshnjúk um helgina. Dagur sem veiktist af gigt fyrir nokkrum árum segir frá því í færslu á Facebook að það hafi verið sérlega sætt að ná toppnum í ljósi veikinda síðustu ára. 

„Í júní fyrir þremur árum lagðist á mig gigt, svo kölluð fylgigigt. Hún kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Einsog sjálfsagt einhverjir muna var ég verulega slæmur lengi vel og þurfti að styðjast við staf allt fram til áramóta. Og ég er enn þá að sprauta mig vikulega með lyfjum. En þvílík undralyf. Um helgina sigraðist ég á sjálfum mér, gigtinni og (sjálfsköpuðu) hreyfingarleysi þessara ára með því að klífa Hvannadalshnjúk í frábærum hópi fólks. Við höfðum 16 tíma glugga til að komast upp og niður milli votviðris, vinda og skúra. Við óðum snjó í ökkla upp og miðja kálfa niður og hrepptum alls konar veður. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta hafi verið auðvelt. Eða að ég sé ekki með strengi og finni til hér og þar. Ég get jafnframt staðfest að það er kalt á toppnum. En þetta var magnað og ég get ekki lýst því með orðum hversu óralangt tilfinningin að ná þessum áfanga var á við óvissuna og glímuna við gigtina undangengin ár,“ skrifar Dagur. 

„Ég ætla að því að tileinka þessa göngu öllum sem glíma við gigt, og þakka Ragnari Frey gigtlækninum mínum og öllum sem hafa komið að meðferðinni. Hins vegar hefði þessi galskapur ekki átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir yfirvofandi fimmtudagsafmæli Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur sem dró okkur Örnu og frábæran hóp fólks með sér í þetta ferðalag. Takk Ásta og frábæri hópur!

Og síðast en ekki síst voru leiðsögumennirnir Marta Kusinska og Brook Woodman hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum algjörlega frábær og fagmannleg í alla staði. Fyrir utan hvað þau voru skemmtileg!

Ég læt svo myndirnar tala sínu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert