Vísindamenn sjá hópamyndun í Eurovision-atkvæðagreiðslu

Moldavar í Eurovisionkeppninni í Kænugarði.
Moldavar í Eurovisionkeppninni í Kænugarði. AP
Sálfræðingar, sem hafa rannsakað atkvæðagreiðslur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á árunum 1991 til 1996, áður en símakosning var tekin upp, segja að þar hafi gætt tilhneigingar til hópamyndunar. Dómnefndir virðist hafa skiptst á atkvæðum og frekar gefið þeim þjóðum atkvæði, sem áður gáfu lögum þeirra atkvæði.

Breskir fjölmiðlar segja frá því í dag, að þeir Alex Haslam hjá Exeterháskóla og Bertjan Doosje hjá Amsterdamháskóla hafi rannsakað atkvæðagreiðslurnar í Eurovision. Í grein, sem þeir skrifa í tímaritið Journal of Applied Social Psychology segjast þeir hafa fundið þrjá meginhópa. Í einum séu Íslendingar, Írar, Bretar, Svíar og Austurríkismenn. Í öðrum voru Finnar, Frakkar, Hollendingar, Portúgalar og Svisslendingar og í þeim þriðja Írar aftur ásamt Tyrkjum, Bosníumönnum, Spánverjum og Króötum.

Haft er eftir Haslam að þessar niðurstöður séu áhugaverðar af ýmsum ástæðum. Þótt tölfræðin bendi sterklega til hópamyndunar hafi skipuleggjendur keppninnar neitað því staðfastlega að slíkt ætti sér stað og ekki væri heldur víst, að dómnefndarmennirnir sjálfir hafi gert sér grein fyrir þessu.

mbl.is