Á áttunda tug hljómsveita og listamanna hafa staðfest þáttöku í Iceland Airwaves

Umsóknarfresturinn til þátttöku í tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves 2007 lauk sl. sunnudag en alls bárust hátt í 300 umsóknir frá innlendum listamönnum og hljómsveitum. Alls bárust yfir 600 umsóknir frá erlendum listamönnum og nú er búið að staðfesta hátt í 80 hljómsveitir og listamenn sem munu taka þátt í hátíðinni í ár.

Að sögn skipuleggjenda mun heildarfjöldi þeirra listamanna og hljómsveita sem munu taka þátt í ár hinsvegar vera í kringum 170 talsins.

Meðal þeirra sem hafa bæst í hópinn er bandaríska indí-hljómsveitin Deerhoof, danski raflistamaðurinn Trentemöller og sænska einmenningssveitin Loney, Dear.

Auk þess hafa íslenskar hljómsveitir á borð við Mínus, Ghostigital, Leaves, Singapore Sling, Skakkamanage, Dr. Spock og Jan Mayen.

Fram kemur í tilkynningu frá Hr. Örlygi, sem sér um skipulagningu hátíðarinnar í samstarfi við Icelandair og Reykjavíkurborg, að dagskráin í ár verði þéttari en nokkru sinni fyrr, en þegar hefur verið greint frá þátttöku Bloc Party, !!!, Gusgus, múm og of Montreal.

Vefsíða Iceland Airwaves hátíðarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina